John Terry fyrrum fyrirliði Chelsea segir frá ótrúlegri sögu úr herbúðum Chelsea þar sem hann og þáverandi stjóri liðsins, Andre Villas-Boas fóru að rífast.
Atvikið átti sér stað árið 2011 þegar Villas-Boas hafði tekið við liði Chelsea. Liðið var á leið til Hong-Kong í æfingaferð.
Þegar komið var um borð í vélina sá Terry að hann og fleiri leikmenn úr aðalliðinu áttu að sitja í almennu farrými en ungir leikmenn áttu að vera á fyrsta farrými.
„Við komum í vélina og ég sit á almennu farrými í 13 tíma flugi en ungir leikmenn voru settir á fyrsta farrými,“ segir Terry í nýlegu viðtali.
„Þarna ætlaði AVB að setja niður fótinn og sanna að hann réði ferðinni. Ég fer um borð og sé að Lampard er á fyrsta farrými og ég er þarna aftast.“
Terry tók þetta ekki í mál og steig hressilega niður fæti. „Ég lét vita að vélin færi ekki á loft fyrr en að ungu drengirnir væru komnir á almennt farrými og við eldri leikmennirnir sem höfðum byggt upp þetta félag værum á fyrsta farrými.“
„Þetta er fyrir framan alla, ungu leikmennirnir færa sig og Villas-Bas kemur til mín og spyr hvert vandamálið sé. Ég læt hann vita að vélin fari ekki fyrr en þetta hafi breyst.“
„Þetta endar með því að eldri leikmenn fara á fyrsta farrými, þannig á þetta að vera. Ungu leikmennirnir þurfa að vinna sig upp. Vélin hefði ekki farið í loft ef þetta hefði ekki verið gert, ég, Lampard og Drogba hefðum séð til þess.“