Í viðtali við Washington Post sagði hann að Rússar muni hefja stórsókn í júní til að ná Donbas á sitt vald enda sé það yfirlýst markmið þeirra.
En hann er með áætlun í bakhöndinni til að mæta þessu. Hann sagði að Úkraínumenn muni þá ekki láta sér nægja að berjast á vígvellinum, þeir muni einnig herða árásir sínar á skotmörk í Rússlandi.
Hann sagði að markmiðið með slíkum árásum sé að sýna að Pútín geti „ekki verndað þjóðina fyrir því að stríðið teygi sig inn í Rússland“.
Jótlandspósturinn bar þessa áætlun undir Peter Viggo Jacobsen, lektor við danska varnarmálaskólann, og sagðist hann hafa efasemdir um hana. Hugmyndin gangi út frá að árás á rússnesku landsvæði valdi klofningi meðal rússnesku þjóðarinnar sem komi Úkraínu til góða.
Hann sagði hins vegar engar sannanir fyrir að það muni gerast. „Þvert á móti, þú sérð oft að þjóðin verður enn reiðari þegar ráðist er á hana. Þessar sömu kenningar voru notaðar í síðari heimsstyrjöldinni, til dæmis í tengslum við hinar miklu sprengjuárásir á þýskar borgir. Þær brutu varnarvilja þýsks almennings ekki niður,“ sagði Jacobsen.
En það er fleira sem Úkraínumenn hafa í huga með þessari áætlun sinni. Með því að ráðast á skotmörk í Rússlandi neyðast Rússar til að vera með mannskap og tækjabúnað þar til að verja flugvelli, olíuvinnslustöðvar og fleiri mikilvæga innviði.