Auglýsingar íslenskra forsetaframbjóðenda eiga það til að verða óttalegar klisjur. Knúsa lamb, klæðast lopapeysu, borða eina með öllu. Það er þetta síðasta atriði sem fer illa í grænkera.
„Ég skora á forsetaframbjóðendur að finna upp á einhverju frumlegu í stað þess að setja myndir af sér að borða dauð dýr á samfélagsmiðla,“ segir Hulda Jónsdóttir Tölgyes sálfræðingur og annar höfundur bókarinnar Þriðja vaktin í færslu á samfélagsmiðlum. „Árið 2024 hlýtur að vera hægt að finna upp á einhverju nýju og skemmtilegu í staðinn.“
Undir þetta tekur meðal annars Rósa Líf Darradóttir, læknir og stjórnarkona í Samtökum um dýravelferð.
„Leiðinlegt að sjá forsetaframbjóðendur flagga því þegar þau borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum,“ segir Rósa. Vísar hún til þess að flest svín sem slátruð eru á Íslandi eru sett í gasklefa fyrir blóðgun. „Ekki til eftirbreytni – gerið betur,“ segir Rósa.