Fjórir leikir fóru fram í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.
Flestra augu voru á Goodison Park þar sem Everton tók á móti nágrönnum sínum í Liverpool.
Það er óhætt að segja að Liverpool hafi ekki náð sér í strik í leiknum en það var Jarrad Branthwaite sem kom Everton yfir á 27. mínútu. Staðan í hálfleik 1-0.
Eftir tæpan klukkutíma leik bætti Dominic Calvert-Lewin við marki og kom Everton í 2-0. Liverpool tókst ekki að ógna forystunni alvarlega og lokatölur 2-0.
Úrslitin þýða að Liverpool er svo gott sem úr leik í titilbaráttunni. Liðið er í öðru sæti, þremur stigum á eftir Arsenal sem er með mun betri markatölu. Stigi á eftir Liverpool kemur svo Manchester City sem á tvo leiki til góða.
Everton fór langt með að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni með sigrinum.
Manchester United tók þá á móti Sheffield United og tókst með herkjum að knýja fram sigur. Jayden Bogle kom gestunum yfir á 35. mínútu en nokkrum mínútum seinna jafnaði Harry Maguire. Staðan í hálfleik 1-1.
Ben Brereton kom Sheffield United yfir á ný snemma í seinni hálfleik en skömmu síðar fékk United víti. Bruno Fernandes fór á punktinn og skoraði.
Portúgalinn skoraði svo flott mark á 81. mínútu áður en Rasmus Hojlund innsiglaði 4-2 sigur United. Liðið er í sjötta sæti, 13 stigum á eftir fjórða sætinu.
Crystal Palace vann þá Newcastle 2-0 í fremur þýðingarlitlum leik. Jean-Philippe Mateta skoraði bæði mörkin í seinni hálfleik.
Loks vann Bournemouth 0-1 sigur á Wolves þar sem Antoine Semenyo gerði eina markið.