Bjarni Mark Antonsson er ekki í byrjunarliði Vals sem mætir FH í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í þessum töluðu orðum. Arnar Grétarsson, þjálfari liðsins, var spurður út í þetta í viðtali fyrir leik.
Bjarni gerði sig sekan um slæm mistök í síðasta leik í Bestu deildinni gegn Stjörnunni þegar hann fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt. Þetta gerðist undir lok fyrri hálfleiks og lauk leiknum 1-0 fyrir Stjörnuna. Nú er Bjarni kominn á bekkinn í leiknum gegn FH.
„Hann gerir bara mistök og tekur ábyrgð á því. Það er ekkert meira um það að segja,“ sagði Arnar í beinni útsendingu RÚV fyrir leik.
Hann tók þó fram að þó Bjarni sé á bekknum í þessum leik þurfi það ekki endilega að vera til lengdar.
„Það breytir því ekki að Bjarni er frábær leikmaður og það koma aðrir leikir eftir þennan leik,“ sagði Arnar.