fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 25. apríl 2024 16:00

Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rétt eins og mannanöfn taka hundanöfn miklum breytingum með tíðarandanum. Jafn vel meiri breytingum ef eitthvað er.

Á vef Árnastofnunar birti Emily Lethbridge, rannsóknardósent, yfirlitsgrein um íslensk hundanöfn og hvernig þau hafa breyst í gegnum aldirnar.

Sámur á Hlíðarenda

Sjálf á hún tík sem kallast Mollý, eða eins og stendur á dýralæknavottorðinu hennar, Mollý Karlotta Svensen McVoff. Var það valið út frá þremur atriðum, auðkenningarhlutverki, tjáningarhlutverki og hlutverki tengt siðum og hefð.

„Þremur árum seinna erum við ánægð með nafnavalið okkar en af og til er nafnið smávegis ruglandi því að þegar ég ber það fram getur það hljómað eins og nafnið Moli. Við vissum heldur ekki að ‘Molly’ er slanguryrði fyrir fíkniefnið MDMA. En fyrir mér, eiginmanni mínum og börnum mun nafnið líklegast alltaf tengjast gæludýri sem okkur þykir vænt um og er hluti af fjölskyldunni okkar,“ segir í grein Emily.

En hver hafa verið nöfnin á íslenskum hundum í gegnum tíðina?

Fyrstu nöfnin koma fram í miðaldaheimildum og frægasti íslenski miðaldahundurinn hét Sámur, hundur sem Gunnar á Hlíðarenda átti og var innfluttur frá Írlandi. Sámsreitur hét staðurinn þar sem Sámur var loks grafinn.

Kolur og Dimma

Önnur hundanöfn má finna í fornritum og þjóðsögum. Voru þau einkum valin á grundvelli litar, útlits feldar og skapgerð. Nefnir Emily nokkur dæmi frá því snemma á 20. öldinni.

Dökkir hundar gátu til dæmis heitið Sámur, Skuggi, Krummi, Kolur og Dimma. Ef þeir voru með hvítan rófubrodd gátu þeir heitið Týri eða Týra. Strútóttir hundar með hvíta kraga hétu gjarnan Strútur, Hringur eða Kragi. Deplóttir hundar Depill eða Flekkur. Stutthærðir og gráir hundar Kópur, Kópi eða Selur. Rófulaus stubbhundur hét Stubbur. Loðnir og lubbulegir hundar Lubbi, Flóki og Brúsi. Spori með spora á löppunum.

Tryggir og duglegir hundar gátu heitið Tryggur, Kátur og Vaskur. Snar hundur Hvatur og sá sem fljótur var að elta fé Sendill.

Hitler frá Sauðárkróki

Óalgengt var að nefna hunda mannanöfnum, en þá helst eftir frægum persónum úr sögunni. Svo sem Napóleon, Neró, Sesar, Plató, Hitler, Göring, Stalín og Mússólíni. Nefnir Emily að sum þessara nafna virki afar neikvætt í dag.

Til dæmis að hundurinn Hitler hafi átt heima í nágrenni Sauðárkróks þar sem fjölmenn herlið var á stríðsárunum. „Hafði eigandi hundsins kallað á Hitler einhverju sinni er hann fór fram hjá bröggum þeirra og þustu þeir til móts við hann, varð þarna talsverð töf, því eigandi hundsins varð að sanna að hundurinn gegndi þessu nafni, en sjálfur var hann mállaus á enska tungu,“ segir hún.

Engir Snatar lengur

Þegar líða tók á öldina byrjuðu íslenskir hundar að fá erlend nöfn. Til dæmis Don, Jack og Spasskí. Þegar komið var á 21. öldina eru hundanöfn orðin miklu fjölbreyttari. Nú er til dæmis algengt að hundar beri mannanöfn, svo sem Konráð, Bubbi og Kári.

Hins vegar eru mörg gömlu hundanöfnin alveg dottin úr tísku. Það eru fáir ef nokkrir Snatar á vappi í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 9 klukkutímum
Selena Gomez trúlofuð
Fókus
Í gær

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?