Þórður Ingason spilar með KFA í sumar en félagið staðfestir komu hans til félagsins í dag. KFA leikur í 2. deild karla en liðið var nálægt því að fara upp síðasta sumar.
Liðið hefur styrkt sig nokkuð í vetur en Eggert Gunnþór Jónsson verður spilandi aðstoðarþjálfari liðsins.
Doddi, eins og hann er oftast kallaður, lagði hanskana á hilluna eftir síðasta tímabil. Þegar Doddi hætti hafði hann unnið urmul af bikurum með Víkingum, ásamt því að hafa leikið fyrir Fjölni, KR og BÍ/Bolungarvík í gegnum ferilinn.
Hanskarnir hafa verið teknir niður af hillunni góðu og kemur Doddi til með að spila með KFA í sumar, en hann flytur austur og verður fyrir austan yfir sumarið.
„Þvílíkur hvalreki fyrir okkur í KFA og Doddi kemur bara til með að styrkja liðið enn fremur fyrir átökin sem framundan eru í 2. deildinni,“ segir í tilkynningu KFA.