Hannes Bjarnason ólst upp á sveitabæ í Skagafirði og var myrkfælinn sem barn. Hann tengir það í seinni tíð við andlega hæfileika sína. Hann var leitandi en fann ekki svörin fyrr en mörgum árum seinna þegar hann fór að fara á námskeiði fyrir andlega þenkjandi fólk í Englandi. Hann sem bauð fram krafta sína sem forseti Íslands árið 2012, safnaði meðmælendum sem til þurfti og hlaut tæplega 1 prósent atkvæða. Hann starfar í dag sem gæðastjóri fyrir norðan og er nýbyrjaður að taka á móti fólki í miðlun og heilun af og til eftir vinnu. Hann talar um orkuna á Íslandi. „Það er svo mikil náttúra og óbeisluð öfl í náttúru Íslands. Það eru frumelement sem eru ekki endilega annars staðar að finna. Það er kannski mesti munurinn á Íslandi og öðrum stöðum, finnst mér. Og fólkið litast af því.“
Síðdegis í húsakynnum Sálarrannsóknafélags Íslands. Kyrrð yfir öllu. Ekki sálu að sjá. Hannes Bjarnason miðill, sem býr fyrir norðan, er í borginni í nokkra daga og var félagið búið að auglýsa að hann tæki á móti fólki þennan dag.
„Ég er hérna, sprelllifandi,“ heyrist sagt. Röddin kemur úr einu af herbergjunum. Þar inni situr svartklæddur, dökkhærður maður. Það er kveikt á saltlampa á borði við hlið hans. Blaðamaður sest í annan stól. Á gólfinu stendur bekkur þar sem þeir sem fara í heilun leggjast.
Það er notalegt andrúmsloft þarna inni. Einhver ró.
Hannes er sveitastrákur sem ólst upp á bæ norður í Skagafirði. „Ég fékk mikið frjálsræði. Ég ólst upp með fleiri ættliðum og í mikilli nánd við náttúruna og ekki minnst Héraðsvötnin sem renna út héraðið en þau skipta sér í tvær kvíslar rétt sunnan við bæinn. Þarna varð náttúrutenging mín formuð, að vera mikið úti í náttúrunni; á skautum á veturna og að sulla í vötnunum endalaust á sumrin. Mér þykir vænt um vatn og vatn gerir mér gott. Þessi jarðtenging sem myndaðist þarna hefur fylgt mér í gegnum lífið.“
Hannes segist hafa verið mjög myrkfælinn sem barn. Og hann endurtekur það með áherslu. Hann segir að myrkfælnin hafi sérstaklega tengst ákveðnum stöðum og nefnir kletta í því sambandi. Bendir á að hann hafi í æsku ekki verið búinn að gera sér grein fyrir næmni sinni og að myrkfælnin hafi tengst því. Hann áttaði sig á því þegar hann var orðinn fullorðinn.
„Mér hefur alltaf gengið afskaplega vel að eiga við dýr; ég tengdist dýrum þegar ég var krakki. Eins átti ég alltaf auðvelt með að tengja við börn og eldra fólk en síður með fólk á miðjum aldri. Ég fór að sjá barnæskuna svolítið í öðru ljósi eftir að ég uppgötvaði næmni mína; ég var sífellt að lesa ósögð orð ef svo má segja.“
Hann segist hafa átt góða æsku og hafa fengið mikið frjálsræði í sveitinni. „Uppeldisárin voru mér góð, gott og stöðugt fólk í kringum mig. Þetta voru góðir tímar fyrir mig. Ég held ég hafi svolítið týnt sjálfum mér á unglingsárunum af því að ég var mjög feiminn og mér fannst vera erfitt að vera ég sjálfur. Kannski vissi ég það ekki heldur hvað það var að vera maður sjálfur. Margir fara þannig gegnum unglingsárin, það getur tekið mörg ár að finna hugrekki til þess að vera maður sjálfur og gleðjast yfir því. Ég held svei mér að ég sé ennþá að finna hliðar af sjálfum mér sem voru mér huldar.“
Hann var í hálfa önn eftir grunnskólanám í Menntaskólanum á Akureyri. „Ég fann mig ekki þar. Ég held það hafi verið félagslegt; því ég hafði lítið sjálfstraust. Ég hætti í MA og fór að vinna í skinnaverksmiðju á Sauðárkrók. Ég fór svo í Framhaldsskólann á Laugum í Reykjadal, var þar í fjögur ár og bjó á heimavist. Þetta var stórkostlegur tími. Þar fann ég mig mjög vel og þar var mjög góður hópur af góðu fólki. Laugar eru yndislegur staður og á sérstakan stað í hjarta mínu. Þar eignaðist ég vini fyrir lífstíð.“ Hann útskrifaðist síðan sem stúdent árið 1993 og fór síðan að vinna á Húsavík í bakaríi en þar stafaði hann í eitt og hálft ár.
Svo fannst Hannesi Bjarnasyni hann þurfa eitthvað nýtt í lífið. Hann vildi út. Systir hans og mágur höfðu stundað háskólanám í Noregi. Það var því eins konar tenging við Noreg til staðar og fetaði Hannes í fótspor þeirra þó þau væru reyndar flutt aftur til Íslands þegar hann flutti út. Hannes vann í Noregi í eitt og hálft ár. Síðar lág leiðin í nám í landfræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist hann þaðan með BS-próf og sem hluta af því námi tók hann eitt ár við Høgskolen i Telemark í Noregi. Upp frá þessu bjó hann í Noregi fram til ársins 2013. Undir lok Noregsdvalarinnar nam hann Master of Management við Handelshøgskolen BI í Osló. Hannes bjó fyrsta árið í Bergen en síðar á Óslóarsvæðinu og vann lengst af hjá hinu opinbera í Noregi. „Ég byrjaði að vinna hjá sveitarfélagi við landmælingar og við stafræna kortagerð, það er landfræðileg upplýsingakerfi og upplýsingatækni. Seinna fór ég að vinna við verkefnastjórnun og opinber innkaup. Undir lokin í Noregi vann ég sem breytingarstjóri hjá stóru upplýsingatæknifyrirtæki sem þá hét þá Every.“
Ástin hélt Hannesi í Noregi en hann á tvö börn með norskri konu. Það samband var þó ekki langt og slitu þau samvistum. Hann kynntist síðan annarri norskri konu og eignaðist með henni eitt barn. Það samband endaði fyrir um tveimur árum.
„Allt í lífi mínu er rauður þráður einhvern veginn. Allt sem hefur gerst hefur leitt mig þangað sem ég er í dag. Ekki minnst þeir hlutir sem eru óþægilegi, vondir og leiðinlegir.“
Hvað meinar Hannes?
„Oft eru það þessir litlu hlutir, jú stærri líka svo sem, og sem eru erfiðir en hafa á sama tíma veitt mér mikinn vöxt. Ég var ekki eins þolinmóður sem krakki eins og ég er í dag. Ákveðnir hlutir sem ég hef gengið í gegnum, getur maður sagt, hafa kennt mér þolinmæði.“
Það voru forsetakosningar á Íslandi árið 2012. Og Hannes Bjarnason, sem var enn búsettur í Noregi, gaf kost á sér. Hann flutti síðan til Íslands árið 2013.
„Íslendingar vildu einstakling sem hafði ekki verið hruninu á nokkurn hátt kenndur. Það var það sem þjóðarsálin kallaði eftir. Vildu ekki neinn sem hafði einhverra hagsmuna að gæta í rauninni. Það var upptakturinn að því að ég bauð mig fram og út frá því ákvað ég að henda hattinum í hringinn. Hvað þjóðarsálin eiginlega vill eða ekki vill er mjög fljótandi, enda breyttist takturinn fljótt og forsetakosningunum var snúið upp í það hvort Ísland ætti að fara inn í Evrópusambandið eða ekki. Það er áhugavert að sjá hvernig kosningavélar ná að stýra umræðum og villa þjóðarsálinni um fyrir sjálfri sér.
Persónulega ákvað ég strax að leitast við að vera ég sjálfur. Ef maður er maður sjálfur og talar út frá eigin samvisku þá þarf maður aldrei að muna hvað maður sagði af því að þá fellur maður aldrei í þá gryfju að tala á móti sjálfum sér.“
Hannes, búandi í Noregi á þessum tíma, kom til Íslands og hitti fólk út um allt land. Í framboðinu lagði hann meðal annars áherslu á nálægð við fólkið í landinu, að brúa bil á milli hópa í þjóðfélaginu, vera fulltrúi landsins á erlendri grundu og vera öryggisventill á milli þings og þjóðar.
Svo voru kosningarnar og Hannes lenti í neðsta sæti með 1% fylgi.
Hvað lærði hann af þessu öllu?
„Séð frá mínu sjónarhorni þá er þetta nokkur sirkus; það sem fólk sér er mikið tilbúið og minna ekta að mínu mati. Stundum breytist fólk þegar það er kveikt á myndavélum nálægt því. Ég tek það auðvitað fram að þetta er mín prívat skoðun. Fyrir mér snýst þetta um mikilvægi þess að vera ekta og þora að sýna sig eins og einstaklingurinn er. Ekki bara einhverja stórkostlega, ljómandi útgáfu af sjálfum sér því öll eigum við okkar ljós og skugga. Til að vera heil manneskja þarf þor til að rannsaka bæði ljósu hliðar sjálfsins og hvað þá þær dökku. Ekki minnst þær dökku því þar er oft eitthvað sem okkur mislíkar og við viljum lítið vita af. Fyrir mig þá væri ég ekki á þeim stað sem ég er í dag ef ég hefði ekki farið í þá innri vinnu. Eins og ég hef þegar sagt þá er mikilvægt fyrir mig að ég sé ég sjálfur í samskiptum við fólk og treysti því að sú ró sem umlykur mig sé rétti staðurinn að vera á þegar ég vinn með fólk. Það skiptir máli í þessari andlegu vinnu að ef andlega buguð manneskja kemur í miðlun eða heilun þá verður miðillinn að taka tillit til þess.“
Hannes segir jafnframt að hann hafi í forsetaframboðinu farið út fyrir þægindarammann. „Það er ekkert gaman að hanga niðri í Kringlu og safna undirskriftum. Og það gerði það náttúrlega að verkum að ég varð sjóaður í því að fara út fyrir þægindarammann. Þó ég hafi ekki verið kosinn þá styrkti þetta mig í trúnni að manneskjan geti gert hluti ef hún virkilega setur sig í það.“
Forsetakosningar eru fram undan. Hvað þarf forseti Íslands að hafa til að bera?
„Heilindi! Það skiptir mjög miklu máli. Viðkomandi þarf að vera tryggur í sjálfum sér og að geta tekið raunverulegar ákvarðanir, þá meina ég ákvarðanir sem geta gengið þvert gegn hagsmunum þeirra hagsmunaaðila sem standa að baki framboði viðkomandi. Af hverju segi ég það? Jú, því það verður enginn kosinn forseti án þess að hafa sterka hagsmunaaðila sér að baki. Það er mín skoðun. Forseti þarf sem sagt að þora að taka alvöru ákvarðanir og hann verður að þora að segja eitthvað sem er óvinsælt. Ef allt væri aðeins dans á rósum þá vantar eitthvað, klárlega. Hann þarf líka að vera diplómat og góður í því að tala við og tengjast fólki, góður að lesa fólk og aðstæður en forseti talar við þjóðhöfðingja og annað fólk út um allan heim.“
Hannes talaði um myrkfælni í æsku. Hann segist hafa skynjað og skynji meira en gengur og gerist en segist ekki hafa gert sér grein fyrir hvað var í gangi, enda hafi hann ekki haft nein viðmið. Segir að hann og fleiri sem eru næmir ströggli varðandi þetta á uppvaxtarárunum. Hann segist þó hafa fiktað og leitað mikið til að fá staðfestingu á hvort hann væri með einhverja andlega hæfileika eða ekki og þá helst með því að lesa bækur um andlega hluti og frásagnir miðla án þess þó að hafa fengið einhverja staðfestingu á eigin næmni þar.
„Ég var svolítið að pæla í andlegum málum og fór til miðils þegar ég var 24 ára. Mamma og pabbi fóru til miðla; það var ekkert leyndarmál á heimilinu að það væri eitthvað meira til þarna úti en augað sér. Og það breytir ansi miklu fyrir barn þegar það er ekki tabú; þegar má tala um hlutina.“
Það var ekki fyrr en árið 2019 sem Hannes fór á námskeið hjá Arthur Findlay Spiritualist College í Englandi sem boltinn fór að rúlla og hann hefur síðan farið þangað reglulega á námskeið. Hann segist vera að vinna í því að fá réttindi til að starfa sem miðill innan bresku „spiritísku kirkjunnar“ til þess að starfa sem miðill þar en þá þarf að fara gengum skóla eða menntakerfi sem byggist upp á því að læra bæði um spiritísma og eins að miðla og heila undir handleiðslu kennara.
„Þegar ég fór á fyrsta námskeiðið áttaði ég mig á að ég hef ákveðna hæfileika. Þar fékk ég tækifæri til að prófa mismunandi hluti og uppgötva hliðar á mér sem ekkert endilega allir hafa en ég hafði alltaf haldið að allir hefðu af því að maður hefur bara sitt eigið viðmið í sjálfum sér. Og þá fór boltinn að rúlla hjá mér.“
Hann er einfaldlega að tala um næmni. Hann talar um næmni varðandi orku svo sem að finna stemmninguna þegar gengið er inn í herbergi og hvernig við bregðumst við því á broti úr sekúndu. „Við skynjum sem sagt hluti sem eru ekki sagðir upphátt og bregðumst við þeim tafarlaust, oft án þess að gera okkur grein fyrir því.“ Hann talar líka um að lesa á milli lína.
„Næmnin getur opnað inn á fleiri rásir, fleiri víddir. Við sem manneskjur getum opnað inn á þessar „rásir“ með ásetningi. En til þess þurfum við að vita hvað, hvernig og ekki minnst hvers vegna við mundum vilja gera það. “
Hannes segist hafa áttað sig á því að þeir sem eru næmir eða skyggnir vinna á mismunandi hátt; taka inn hluti á mismunandi hátt. Hann segist til dæmis lítið sjá í myndum. „Þetta kemur fyrst og fremst til mín sem tilfinning eða að ég veit hluti. Og það kallast á fræðimáli „clear sensing“ (skýr skynjun) og „clear knowing“ (skýr þekking). Ég tek mína miðlun eiginlega alla í gegnum tilfinninguna.“
Er hægt að læra þetta á námskeiðum? Að auka næmnina?
„Allir eru með eitthvað. Og það er bara spurning hversu mikið fólk er tilbúið að veita því athygli og að vinna í því. Hvað varðar „physical mediumship“ þá þarf viðkomandi að vera fæddur með þá hæfileika en þetta einkenndi marga þekkta miðla hérna áður fyrr. En núna hefur þróunin farið í þá átt að minna er um „physical mediumship“ og yfir í „mental mediumship“.
Það sem einkennir flesta miðla í dag kallast „mental mediumship“ sem felst í því að upplýsingar koma til miðils sem skynjun í gegnum skynfæri, til dæmis hljóð, sjón, heyrn, bragð, lykt eða tilfinning. Það sem kennt er í Bretlandi segir að við lifum á tímum þar sem ekki er eins mikil þörf á því á sanna í gegnum „physical mediumship“ að það séu til aðrir tilvistarheimar til dæmis hlutir sem svífa í lausu lofti og útfrymi.“
Hannes segir að gerður sé greinarmunur á „clairvoyance“ (fjarskyggni / dulskyggni) og „mediumship“ (miðlun). Hann segir að hvað það fyrra varðar þá lesi viðkomandi í áru fólks og að ekki séu allir „clairvoyance“ sem geta náð tengingu við handanheima. Hann segir hins vegar að þeir sem eru miðlar séu líka með hæfileika varðandi fjarskyggni / dulskyggni.
Hannes er spurður hvort það sé samþykkt á meðal miðla hér á landi að fólk fari á svona námskeið. „Nú þekki ég það ekki svo mikið. Það er bæði bölvun og blessun að þekkja lítið miðlasöguna á Íslandi; sérstaklega nútímasöguna. En ég þekki náttúrlega sögu Indriða miðils. Þar sem ég geng í breska skólann þá er ég að sjálfsögðu litaður af því. Þegar ég fór þangað þá kynntist ég Seven Principles of Spiritism sem er eiginlega biblía spiritísku kirkjunnar þar í landi og sem Arthur Findlay Spiritualist College byggir sína kennslu á og þar fannst mér ég vera svolítið kominn heim. Það var upp úr 1900 sem enska spíritíska samfélagið sameinaðist en fram að því höfðu verið mörg minni staðbundin félög. Upp úr því var farið að huga að formlegri menntun miðla. Arthur Findlay Spiritual Collage í Stansted var svo stofnaður upp úr 1945 en þá gaf Arthur Findlay, sem var mikill áhugamaður um spíritisma, Spiritual National Union herragarð sem hann átti með því skilyrði að þar yrði stofnaður skóli fyrir miðla. Þar er nú boðið upp á ýmiss konar námskeið; fólk getur skráð sig og tekið þau námskeið sem falla að þeirra áhuga og/eða fólk getur líka farið í gegnum ferli til þess að fá réttindi og til þess að geta starfað sem miðill í bresku spíritisku kirkjunni sem er að finna á mörgum stöðum í Bretlandi. Það þarf þó að fara í gegnum töluvert nám til þess að öðlast þau réttindi.
Á Íslandi eru víða sjálfstætt starfandi sálarrannsókarfélög; sum hafa reyndar lagst niður. Sálarransóknarfélag Íslands og Sálarransóknarfélagið á Akureyri hafa verið að samhæfa hæfniskröfur til miðla sem þar starfa. Þar sem ég starfa hjá Sálarrannsóknarfélaginu á Akureyri þurfti ég að fara í ákveðið ferli til þess að fá að starfa innan félagsins þar. Í því ferli hafði ég einkatíma fyrir þrjá aðila sem gáfu svo sína umsögn varðandi það hvort ég væri að standast þau viðmið sem félagið setti til þeirra sem væru að miðla.
„Á meðan ég bjó í Noregi, eða í 17 ár, þá jókst áhuginn á andlegum málum og einhvern tímann fór ég í nám hjá þekktum shaman sem hét Alio Gaup. Hann var norskur seiðkarl og skrifaði nokkrar bækur um shamanisma. Nokkur hópur hittist fjórar helgar eitt árið. Eitt það mikilvægasta sem ég lærði hjá honum var að fara að vinna þegar ég ætti að fara að vinna. Þess á milli er ég ekki að vinna sem gerir það að verkum að ég geng ekki um bæinn og er sítengdur. Það tel ég óhollt; en það er mín skoðun.“
Hannes segir að þegar hann opni fyrir orkuna eða flæði áður en hann fer að vinna við andleg störf – miðlun eða heilun – finni hann fyrir jarðtengingunni og hreinlega byrji að miðla. „Ég slekk á sjálfum mér og tengi við viðkomandi einstakling sem kemur í miðlun og á sama tíma myndast tenging við andaheima. Allir miðlar vinna mismunandi. Sumir leita upp og tengja í ljósið en aðrir opna sig þannig að þeir opni vitund sína eins og blóm opnar krónu sína. Jarðtengingin er svo mikilvæg. Því að hafa alist upp í náttúrinni þakka ég góðri og stöðugri jarðtengingu sem aftur gerir mér kleift að komast fljótt á þann stað að geta hafið miðlun.“
Hannes segir að tenging við andaheima snúist um þá vitneskju að lífið eins og við þekkjum það sé ekki búið þegar fólk deyr líkamlegum dauða heldur sé aðeins umbreyting. „Þá fer vitund okkar sem margir kalla anda eða sál og sem er ekkert annað heldur en orka úr líkamanum og lifir áfram í andaheimum. Ég líki því oft við að þegar dauðann ber að garði þá þurfum við ekki fötin okkar lengur, það er líkamann. Breski skólinn snýst meira og minna um þetta, að ástvinir sem eru búnir að missa nákominn og eru í mikilli sorg skilji og geti fengið sannanir fyrir því að það sé líf eftir dauðann. Fari þeir til góðs miðils gætu þeir fengið nægar sannanir fyrir því að í raun séu ástvinir þeim nærri þó þeir séu í andaheimum.“
Og eins og þegar hefur komið fram segist Hannes almennt ekki sjá myndir í miðlun sinni – og þar með látna – heldur segist hann finna tilfinninguna sem tengist þeim sem hjá honum er hverju sinni og geti þá lýst persónuleika og jafnvel líkamlegu atgervi.
„Lengi vel fannst mér alveg ömurlegt að ég skyldi ekki sjá myndir en ég hef komist að því að ef miðlar sjá myndir þá geta þeir verið svo uppteknir af sjóninni að það gæti hamlað miðlun þeirra. Að sjálfsögðu er þetta þó ekki algilt frekar en nokkuð annað.“
Hannes vinnur sem gæðastjóri á Sjúkrahúsinu á Akureyri og ekki er langt síðan hann byrjaði að bjóða upp á tíma í miðlun og heilun. Hann segir að það hafi verið ákveðið skref að fara að auglýsa sig sem miðil og heilara og að hann hafi vitað að hann gæti fengið alls konar viðbrögð. „Ég var náttúrlega í forsetakosningunum á sínum tíma og það er auðvelt fyrir fólk að tengja við þær.“
Hann segir að viðbrögð þeirra sem hafa leitað til sín hafi verið góð og að allir hafi farið ánægðir út svo best sem hann viti og að sumir hafi komið aftur.
„Ef ég er að miðla fyrir persónu þá er viðkomandi með alla athygli mína og svo kemur það fram sem hann þarf að heyra í það skiptið. Það er að ég er ekki að sortera það sem kemur fram. Þetta verður að fá að streyma eins og því er ætlað,“ segir Hannes sem segist lítið sem ekkert muna það sem hann segir í miðlun.
Hvað gerist í heilun?
„Það eru til mismunandi form af heilun. Í þessum breska skóla er talað um þrjú mismunandi form af heilun. Það er heilun sem kallast „magnetic healing“ þar sem miðillinn er að nota sína eigin orku, lífsorku ef svo má segja, og gefur hana til þess sem hann er að heila. Svo er það sem kallast „distant healing“ sem ég geri mest af en þá liggur viðkomandi á bekk í herbergi þar sem heilun fer fram og ég sit á stól og tengi mig við andaheima. Því næst streymir orka frá andaheiminum í gegnum miðilinn og til manneskjunnar sem er í heilun. Þriðja formið af heilun kallast „remote healing“ en þá sendir heilarinn orku frá andaheimum til þess sem heilun á að fá. Þeir sem vinna með heilunarorku sem gengur út á tengingu við andaheima og að fá orku þaðan í gegnum sig gerir það að verkum að þeir þreytast síður þegar þeir heila.“
Hannes segir að sér finnist heilun vera undirstaða fyrir miðlun. „Ástæðan er að þegar maður er í heilun lærir maður líka samúð og samkennd sem er mikilvæg. Og maður vill virkilega að sá sem heilun fær verði heill. Og þar finnst mér að auðmýkt skipti máli. Maður nálgast þetta með auðmýkt. Nálgast anda sinn með auðmýkt. Nálgast fólk sem kemur til manns með auðmýkt. Og maður þakkar anda sínum fyrir þegar maður er búinn að miðla og það skiptir líka máli. Það skiptir einnig máli að hafa unnið í eigin bakgarði, unnið vel úr sínum persónulegum málum þannig að maður fari ekki inn í vinnu með andleg mál með bakpokann fullan af einhverju óunnu dóti.“
Hann segist vera með leiðbeinendur að handan en að hann fái lítið sem ekkert að vita um þá. „Þegar ég reyni að nálgast þá þá fæ ég bara tannlaust bros. Mér fannst fyrst vera leiðinlegt að ég fékk ekkert að vita um þá en svo skiptir það engu máli vegna þess að þeir eru þarna engu að síður.“
Hannes er spurður hvernig hann skynji leiðbeinendurna. „Eins og ég sagði þá er ég að taka mína miðlun í gegnum tilfinningar og það að bara vita hluti. Eins er það með leiðbeinendur mína; ég skynja þá. Meira að segja útlit þeirra og umhverfi.“
Það liggur enginn á bekknum í herberginu þetta síðdegið en Hannes segir að þegar fólk er í heilun upplifi hann yfirleitt djúpa ró. „Það er öðruvísi upplifun þegar ég finn að sá sem er í heilun nær ekki að róa sjálfan sig niður. Þá er orka viðkomandi eins og hvirfilvindur í kringum hann allan tímann.“ Eins og áður segir vinnur Hannes með „distant healing“ og segist tengja beint við heilunarorku frá andaheimum. „Þetta er alls konar. Og breyturnar geta verið svo margar. Þess vegna skiptir máli að nálgast þessa vinnu af auðmýkt. Sumir ná góðri og djúpri slökun en aðrir ekki. Tímar geta verið mjög misjafnir.“
Og eins og áður hefur komið fram vinnur Hannes sem gæðastjóri á Sjúkrahúsinu á Akureyri. „Ég er að vinna á stað þar sem raunvísindin eru eðlilega sterk og það finnst mér vera fínt. Það hefur sums staðar erlendis verið ákveðin þróun varðandi samvinnu lækna og heilara. Heilarar geta til dæmis komið inn á sjúkrahús í Bretlandi. Þá man ég eftir lækni frá Norður-Noregi en hann sat um tíma á þingi þar í landi; Olav Gunnar Ballo minnir mig að hann hafi heitið. Hann sagði frá í viðtali að hann hafi lært þulu eða eins konar bæn sem hægt væri að fara með til að stoppa eða draga úr blæðingum. Síðar dró hann úr þessu, sagðist ekki nota þetta sjálfur en á sama tíma undirstrikaði hann það að vera læknir í Finnmörku væri ekki hægt að loka augunum fyrir þeim hefðum sem þar ríktu varðandi andleg málefni. Annars held ég að allir sem vinna við miðlun hvetji fólk til að leita til læknis ef þess þarf.
Almennt byrja ég alla mína tíma á því að minna fólk á það að það er eigin herra og ber algjörlega ábyrgð á sjálfu sér og eigin ákvörðunum. Það þýðir að ef það sem miðill segir gengur þvert á innri sannfæringu viðkomandi þá eigi hann að hlusta á eigin sannfæringu og ekki orð miðils.“
Það hefur verið sagt að ekki eigi að leita frétta hjá framliðnum og sumir hafa ekki trú á starfi miðla og heilara og finnst það vera kukl og jafnvel eitthvað enn verra. Hvað finnst Hannesi um þessar efasemdaraddir?
„Það plagar mig ekkert. Ég er ekki í trúboði og hver á að trúa sínu án þess að ég eða annar þurfi að hafa áhrif á það. Hvað varðar þann spíritísma sem ég er að nema þá er það byggt upp á samkennd manna, virðingu og þolinmæði svo eitthvað sé nefnt.
Það sem rammar inn breska spíritísmann eru „Seven Principles of Spiritism“ sem breski miðillinn Emma Hardinge Britten kom fram með í lok 19 aldar. Ég hvet einmitt fólk til að gúggla Seven Principles of Spiritism og lesa. Mér finnst þetta eiginlega snúast um manngæsku. Þar er til dæmis talað um „Brotherhood of Men“ sem gengur út á að við erum öll jöfn sama hvað varðar til dæmis kynþátt, trúarbrögð og þjóðerni. Við erum öll bræður og systur vegna þess að við erum öll á sömu leið, þroskaleið gegnum fleiri líf. Við erum bara á mismunandi stöðum. Þetta snýst um þolinmæði, skilning og persónulega möguleika. Hvert okkar ber ábyrgð á sjálfu sér og öllum okkar ákvörðunum; við getum ekki kennt öðrum um ef við erum ekki hamingjusöm. Við verðum að taka ábyrgð á okkur sjálfum og það fer eftir því hvernig við högum okkur og lifum lífi okkar hvernig okkur gengur eða á hvaða stað við erum þegar við förum hinum megin. Hvort sem fólk hefur trú á spírítisma eða ekki þá meikar þetta eiginlega sens fyrir alla sem vilja lifa jákvæðu og góðu lífi, þá sem vilja skilja eitthvað eftir sig í þessu lífi til góðs fyrir hina. Það finnst mér skipta öllu máli.“
Hannes segist ekkert hafa orðið var við gagnrýnisraddir hvað sig sjálfan varðar. „En pottþétt þegar þetta viðtal verður birt og ég fer að lesa athugasemdir á samfélagsmiðlum þá kemur eitthvað. En það er allt í lagi af því að ég veit það sem ég veit og ég hef fengið sannanir þegar ég sjálfur fór til miðla á sínum tíma. Það sama á við þegar ég hóf mína vegferð í þessum málum. Stutt saga er þegar frændi minn hafði látist og ég, faðir minn og bróðir tókum ásamt fjórða manni gröf í kirkjugarði. Í gröfinni skagaði mjög stór steinn svolítið inn í gröfina en það kom samt ekki að sök. Einhverjum árum seinna fór ég til miðils og þá kom einmitt þessi blessaði frændi minn fram í gegnum miðilinn og sagði að sér fyndist að við hefðum getað tekið þetta bjarg; gröfin hefði verið fullþröng við fótalagið. Þetta er bara eitt dæmi; af hverju í ósköpunum ætti einver að vita þetta? Það er bara ekki hægt! Það voru fjórir aðilar þarna og við vorum ekkert að segja fólki frá; hvorki fjölskyldunni né öðrum.
En ef einhver trúir ekki einhverju þá er það allt í lagi mín vegna. Það er ekkert að plaga mig og ég þarf ekkert að sannfæra neinn um að það sé víst líf eftir dauðann, fólk má gera það upp við sjálft sig. Það eru allir á sinni vegferð í lífinu og ég sem spíritisti ber virðingu fyrir því.“
Orkan í náttúrunni
Miðillinn/heilarinn er spurður um orkuna í Noregi og Íslandi. Andlegu orkuna í löndunum þar sem hann hefur búið.
„Þetta er góð spurning. Ég þekki töluvert af Norðmönnum sem eru andlega sinnaðir. Við erum öll svolítið lituð af bakgrunni okkar þegar við förum inn á andlega heiminn en við erum öll að nálgast það sama frá mismunandi sjónarmiðum. Ég held að andlega orkan hér á Íslandi sjáist best í krafti náttúrunnar og heilunarmætti hennar. Enda eru margir hér á landi sem sækja mikið út í náttúruna og ná sér þar í heilun. Það er falleg náttúra í Noregi en krafturinn í íslensku náttúrinni er samt villtari. Mér finnst þetta vera svona ofurkraftur ef svo má segja. Hann er gamall. Þetta með eldgosin, jarðhitann sem bræðir og allur þessi vindur.
Það er þessi frumkraftur sem er svo sterkur. Það er þessi frumkraftur og þetta harðneskjulega umhverfi sem við lifum í. En á sama tíma er líka ómæld mýkt í því af því að allt er yin og yang – þar sem er sterkur kraftur er oft líka mikil mýkt.
Ég tengdist alltaf vel fólki frá Norður-Noregi til dæmis; mér fannst það vera líkara Íslendingum heldur en fólk – „østenfjells“ svokallað – þar sem ég bjó lengi. Orkan á Íslandi er einfaldlega öðruvísi.“
Hannes segist halda að Íslendingar séu opnari fyrir andlegum málum heldur en margar aðrar þjóðir og nefnir í því sambandi þjóðsögurnar og draugasögur. Og hann segist halda að Íslendingar margir trúi svolítið á vætti og álfa. „Ég geri það klárlega. Ég hef fundið fyrir návist þeirra mjög sterkt. Þannig að ég held að almennt séð séu Íslendingar sem þjóð meira opnir fyrir þessu; nú sé ég kommentin við viðtalið renna inn.“
Bros.
Önnur vídd
Hannes Bjarnason er á sinni vegferð í lífinu sem stundum er eins og lygnur sjór en stundum teygja öldutopparnir sig í átt til himins. Það skiptast á skin og skúrir. Hverjar hafa verið erfiðustu stundirnar í lífi hans?
Þögn.
„Glíman við eigin drauga.“
Þögn.
„Og þora að hafa hugrekki og úthald til að horfast í augu við sjálfan mig.“
Hverjir eru draugar miðilsins?
„Ég bauð upp á þessa spurningu,“ segir hann og brosir. „Ég veit ekki hverjir mínir draugar eru; en ein af mínum mestu áskorunum er kannski að vera nógu góður.“
Sem manneskja?
„Já, vera nógu góður og eiga gott skilið. Að trúa á sjálfan mig. Ég held að það sé hlutur sem margir berjast við.“
Skortir hann enn sjálfstraust; hann sem var feiminn sveitastrákur á unglingsárunum?
„Já, kannski í ákveðnum aðstæðum svo sem hvað varðar ferð mína til að verða miðill. Ég er venjulegur sveitastrákur að norðan. Hef ég eitthvað sérstakt fram að færa? Þetta er svolítið þannig.“
Hann nefnir fleiri áskoranir í lífinu. „Svo eru það náttúrlega sambandsslit þar sem lítil börn hafa verið inni í myndinni. Það er það klassíska getur maður sagt. En stærstu glímurnar hafa tengst því að egóið er alltaf að kvísla að manni að maður sé ekki nógu góður fyrir hitt og þetta, hlutur sem ég held að flestir geti meira og minna tengt við.“
Hann sem er næmur vinnur á Akureyri en býr á bæ í Skagafirði þar sem amma hans og afi bjuggu. „Þú trúir því ekki hvað það er mikill munur að vera á Akureyri og í sveitinni í Skagafirði þó svo Akureyri sé bæði fallegur og rólegur bær. Það er bara svo einstök ró í sveitinni. Og bara orkan. Og allt. Ég sæki mikið í þessa ró og orku. Ég sæki mjög mikið í náttúruna; ekki endilega til að fara að hlaupa úti í náttúrunni heldur vera hluti af henni. Kannski var mín sterkasta náttúruupplifun um miðja nótt þegar ég fyrir mörgum árum fór með sex hross frá Vallabökkunum, norður Borgareyjuna með bökkum Héraðsvatna. Við vorum að fara með kindur á fjall fyrr um daginn.“ Og Hannes reið einn með hestana inn í nóttina. „Sólin var að koma upp og vötnin liðu fallega. Það var allt gullið. Grafarþögn ríkti yfir öllum firðinum.“
Þögn.
„Það rauk af hestunum. Það var þessi náttúruupplifun að verða eitt með öllu. Hún var bæði svo sérstök og sterk. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því. Ekki hægt að koma því í orð. Þá skipti ég ekki máli; hvort ég væri hestur, strá, vatnið eða litli óðinshaninn í straumvatninu. Ég var hluti af öllu. Það var eins og allt stöðvaðist.“
Þögn.
„En samt rauk af hestunum. Og fuglar sátu í vatnsfletinum. Þetta var geðveikt augnablik. Þetta kemur alltaf til með að fylgja mér.“
Það er eins og Hannes sé að lýsa öðrum heimi.
Annarri vídd.