Hvað varðar næsta heimsfaraldur þá er líklegast að inflúensuveira muni valda honum að mati leiðandi vísindamanna á þessu sviði.
The Guardian skýrir frá þessu og segir að í nýrri alþjóðlegri könnun, sem var birt nú um helgina, komi fram að 57% af helstu smitsjúkdómafræðingum heims telji að flensuveira muni valda næsta banvæna heimsfaraldri.
Ástæðan fyrir þessu er byggð á langtímarannsókn sem sýnir að flensuveirur eru sífellt að þróast og stökkbreytast að sögn Jon Salmanton-Garvía, hjá Cologne háskóla, sem gerði könnunina.
„Inflúensa kemur fram á hverjum vetri. Það má segja þessa faraldra vera litla heimsfaraldra. Það er hægt að hafa stjórn á þeim að meira eða minna leiti því hin mismunandi afbrigði, sem valda þeim, eru ekki nægilega illvíg en það mun ekki endilega eiga við að eilífu,“ sagði hann.
Á eftir flensuveiru er talið líklegast að veira, sem hefur verið nefnd „Sjúkdómur X“ valdi næsta heimsfaraldri. Þetta er veira sem er enn óþekkt en gæti komið fram á sjónarsviðið á einhverjum tímapunkti að mati 21% þeirra 187 sérfræðinga sem svöruðu könnuninni.
15% sérfræðinganna telja að Sars-CoV-2, sem olli síðasta heimsfaraldri, sé enn ógn og geti valdið öðrum heimsfaraldri í náinni framtíð.
Meðal annarra veira sem voru nefndar til sögunnar eru Lassaveiran, Ebóluveiran og Zikaveiran.