Uppnám varð á Íslandsmótinu í skák nú fyrir stundu þegar stórmeistarinn Héðinn Steingrímsson mætti ekki til leiks í skák sinni gegn Lenku Ptacnikovu í sjöundu umferð mótsins. Mótið fer fram í golfskálanum við Hlíðarvöll í Mosfellsbæ en heimildir DV herma að Héðinn hafi undanfarna daga mótmælt hávaða sem berst af kylfuhöggum, hvini í golfboltum sem og dynkjum sem berast þegar boltarnir skella á tjöldum við golfherma í skálanum.
Gerði hann kröfu um að mótið yrði flutt en við því urðu fulltrúar Skáksambands Íslands, mótshaldara mótsins, ekki. Var sú ákvörðun tekin meðal annars á grundvelli þess að kvartanir hafa ekki borist frá öðrum keppendum.
Ljóst er að brotthvarf Héðins mun hafa mikil og slæm áhrif á mótið og jafnvel eyðileggja það ef marka má viðbrögð á Facebook-síðunni Íslenskir skákmenn. Mótið fer nefnilega þannig fram að tólf skákmenn tefla, allir við alla, um Íslandsmeistaratitilinn. Héðinn, sem hefur þrisvar orðið Íslandsmeistari og var fyrirfram meðal sigurstranglegustu keppenda, hefur átt erfitt uppdráttar í mótinu en hann gerði þó jafntefli við Hannes Hlífar Stefánsson, kollega sinn, sem er einn af þeim sem er í toppbaráttu mótsins.
Brotthvarf Héðins mun hins vegar þýða að Helgi Áss Grétarsson, sem var efstur í mótinu fyrir umferðina í dag, mun fá ókeypis vinning sem og dýrmæta hvíld í 8. umferð mótsins sem fer fram á morgun. Ljóst er að ríkjandi Íslandsmeistari, Vignir Vatnar Stefánsson, sem var hálfum vinningi á eftir Helga fyrir umferð mótsins og hefur þegar lagt Héðinn að velli, kann kollega sínum litlar þakkir fyrir.
Afar fátítt er að einhver hætti í Íslandsmótinu í skák en síðast þegar það gerðist árið 2016 var um veikindi hjá viðkomandi keppanda að ræða. Þá gæti þessi ákvörðun Héðins dregið dilk á eftir sér og mögulega kostað hann keppnisbann í einhvern tíma.
Uppátæki Héðins hafa áður ratað á síður fjölmiðla.
Árið 2016 hætti hann við þátttöku í stærsta móti ársins hérlendis, Reykjavík Open, af því að keppnisborðin voru 10 sentímetrum of stór miðað við tilmæli frá FIDE – alþjóðaskáksambandinu. Vakti ákvörðunin nokkra athygli enda var Héðinn ríkjandi Íslandsmeistari á þeim tíma. Var ekki brugist við kröfu Héðins um ný borð á skákstað því að engin annar keppandi hafði gert athugasemd við stærð þeirra.
Árið 2020 var Héðinn svo áminntur af dómstól Skáksambands Íslands fyrir rifrildi við kollega sinn Guðmund Kjartansson á Brim-mótaröð Taflfélags Reykjavíkur. Fréttablaðið fjallaði um málið á sínum tíma en þá hætti Héðinn í mótinu eftir að hafa rifist við Guðmund um hvort að skákborðið, sem þeir voru við það að hefja viðureign sína á, væri á miðju borðsins. Sitt sýndist hverjum um hvar miðja borðsins væri og að endingu
Atvikið átti eftir að draga enn frekari dilk á eftir sér því síðar sama dag ákváðu báðir keppendur að fara fyrir tilviljun í heilsubótagöngu í Elliðaárdal. Þegar þeir rákust á hvorn annan í dalnum fagra taldi Héðinn sig eiga eitthvað vantalað við Guðmund vegna málsins. Guðmundur lagði í kjölfarið á flótta og var Héðinn sagður hafa veitt honum eftirför sem fjallað var um í helstu fjölmiðlum landsins. Var það atvik líka kært til dómstóls Skáksambands Íslands sem vísaði þó málinu frá á þeim grundvelli að atvikið væri utan lögsögu dómstólsins.
Héðinn áfrýjaði síðar úrskurði dómstólsins, hafði árangur sem erfiði og var áminningin dregin tilbaka.