Tölvuleikjaunnendur, aðallega þó þeir sem voru upp á sitt besta um aldamótin, eru að missa sig af spenningi yfir því að einn af þeirra dáðustu drengjum eygi nú von að að enda á Bessastöðum.
Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri og meðstofnandi hugbúnaðarfyrirtækisins 50skills, er eiginmaður Höllu Hrundar Logadóttur, orkumálastjóra, sem er á mikilli siglingu í skoðanakönnunum á fjórfaldaði fylgi sitt í nýlegum Þjóðarpúlsi Gallup og státar nú af um 16% fylgi.
Á árum áður var Kristján Freyr nefnilega einn af bestu Counter-Strike spilurum landsins og var einn af lykilmönnum í hinu goðsagnarkennda liði MurK sem átti góðu gengi að fagna í netmótum hérlendis, sem og erlendis, um aldamótin. Gekk Kristján Freyr undir nafninu MurK-Krissi og naut talsverðrar frægðar, bæði í tölvu- og raunheimum.
Á efnisveitunni Youtube geta áhugasamir skoðað myndbönd með tilþrifum frá Kristjáni á árum áður.