Gunnar Dan Wiium, þáttastjórnandi hlaðvarpsins Þvottahúsið, hefur ýmsar vangaveltur um glansmyndina eftir að hafa setið 12 spora fund í morgun. Hann segist sjálfur sekur um að lyfta sjálfum sér upp og skapa ákveðna ímynd á samfélagsmiðlum og spyr hvort hann eigi að skammast sín fyrir það.
„Ég sat 12 spora fund í morgun þar sem menn töluðu um hvernig þeir höfðu með lélegum árangri reynt að laga sitt andlega mein með veraldlegum gæðum, bílar og hús og vélsleðar og mótorhjól og kellingar og svo framvegis. Allar hugmyndir um að efni sem hráefni í andlegt heilbrigði eru dæmdar til að mistakast. Draslið ryðgar og verður bara byrði þrátt fyrir að í byrjun fylgir oft léttleiki og tilfinning frelsis,“ segir Gunnar í færslu á Facebook.
„Ég sé á samfélagsmiðlum hvernig við segjum sögurnar um okkur sjálf í samhengi hvað við eigum. Ég er sjálfur sekur um það ef sekt þar að segja á við. Ég sýni myndir og tala um framkvæmdir og bílakaup og svo set ég myndir af fallegu konunni minni og fallegu dóttur minni og monta mig, lyfti mér upp. Spurningin er hvort ég eigi að skammast mín fyrir þennan mögulegan óþroska minn og hvort að ásetningur minn og forsendur séu réttar. Er ég að fylla eitthvað tóm með því að segja söguna sem ég vill að aðrir segi um mig? Vill ég að fólk haldi að ég hafi stjórn og sé ríkur og vel heppnað eintak? Vill ég að fólki haldi að mér finnist ég vera nóg og fullur af sjálfstrausti þegar ég kannski er það ekki? Hef ég sjálfstraust og sjálfsmynd mín byggð á traustum grunni, er ég ríkur af sjálfsvirðingu?“
Gunnar segir að þetta séu allt gildar spurningar sem mikilvægt er að spyrja sjálfan sig á tímum samfélagsmiðla.
„Þegar ég gekk af stað í morgun í vinnuna mína sem ég er svo þakklátur fyrir stoppaði ég á miðri gangstétt og horfði á húsið mitt og bílana mína. Stelpurnar voru farnar í vinnu og í skólann og húsið tómt á 500 fermetra hornlóð sem ég hef síðustu 10 ár breytt í hálfgert Eden. Ég fylltist gleði og þakklæti fyrir að búa svona vel og snyrtilega, ég fylltist gleði og þakklæti fyrir að eiga þessar bifreiðar sem skipta mig svo miklu máli eins barnalega og það getur hljómað. Ég áttaði mig á því að ég hef skapað þennan efnisveruleika með mikilli þrautseigju, áræðni, hugrekki, skýrrar framtíðarsýnar og mikillar vinnusemi. Ég viðurkenni að ég fylltist stolti, ég er stoltur af sjálfum mér og vinnunni sem ég hef lagt í þetta verkefni að koma mér og fjölskyldunni minni fyrir. Ég er stoltur af sjálfum mér að kaupa mér hluti sem ég kann að meta og ég leik mér að.
Draumurinn um Golf GTE með köflóttum sætum og skiptingu í stýri ásamt draumnum um rauðan Bronco hafa orðið að veruleika því ég framkallaði þá sjálfur með íhugun og framkvæmd. Í botn og grunn er ég bara maður með takmarkaðan tíma á þessari jörð og frá því að ég var drengur hefur ég leikið mér að efni og það eina sem hefur breyst er að leikföngin hafa bara stækkað.
Ekkert af þessu er afgerandi og gerir mig aldrei hamingjusaman en hlutir veita mér gleði og þeir fara í gegnum líf mitt og eru yfirleitt svo bara seldir svo pláss sé myndað fyrir nýja hluti inn í líf mitt. Þannig er það, þetta er bara leikur og ég má leika mér og ég skammast ekkert fyrir að segja það, þessa sögu segi ég skammlaust og án sektar.“