Knattspyrnudeild Víkings Ó., Knattspyrnudeild Selfoss og knattspyrnumaðurinn Gary Martin hafa gert með sér samkomulag um að Gary gangi til liðs við Víking Ó. á láni og spili með liðinu í sumar. Liðið leikur í 2. deild karla.
Gary þarf ekki að kynna fyrir áhugamönnum um íslenska knattspyrnu. Hann hefur leikið með ÍA, KR, Val, ÍBV og Selfossi á ferli sínum hér á landi. Þá hefur hann skorað 179 mörk í 329 leikjum á Íslandi. Hann hefur einu sinni orðið Íslandsmeistari, tvívegis orðið bikarmeistari og í þrígang hefur hann verið markakóngur í efstu deild.
Hann hefur einnig spilað með Lokeren í Belgíu og Lilleström í Noregi.
Til gamans má geta að hann hefur níu sinnum mætt Víkingi Ó. á knattspyrnuvellinum. Þar hefur hann unnið 7 leiki og gert tvö jafntefli. Þá hefur hann skorað 9 mörk í þessum níu leikjum.