Erik ten Hag, stjóri Manchester United, helti sér yfir blaðamenn á fréttamannafundi fyrir leik liðsins gegn Sheffield United á morgun.
Það er hiti á Ten Hag eftir að United marði Coventry í vítaspyrnukeppni í undanúrslitum enska bikarsins um helgina. Lærisveinar Ten Hag voru komnir í 3-0 í leiknum en Coventry stal næstum sigrinum í blálok framlengingarinnar. Mark þeirra var þó dæmt af vegna afar naumrar rangstöðu.
Það hefur verið mikið rætt og ritað um vandræðalega frammistöðu United í leiknum og Ten Hag er kominn með nóg.
„Var þetta vandræðalegt? Nei. Ykkar viðbrgöð voru vandræðaleg,“ sagði hann á fréttamannafundinum í dag.
„Fótbolti á hæsta stigi snýst um úrslit, Við erum komnir í úrslitaleikinn og eigum það skilið, ekki bara fyrir þennan leik heldur líka aðra leiki.
Við misstum stjórnina í 20 mínútur og vorum óheppnir. Að lokum vorum við svo mjög heppnir. Vítin voru góð og við erum komnir í úrslit. Það er risastórt afrek. Ummæli ykkar eru til skammar,“ sagði Ten Hag enn fremur.