Það stefnir í að Erik ten Hag verði látinn fjúka frá Manchester United í sumar. Breska götublaðið The Sun heldur þessu fram.
Samkvæmt miðlinum var síðasti naglinn rekinn í kistu Ten Hag um helgina þegar liðið marði B-deildarlið Coventry í undanúrslitum enska bikarsins. Vítaspyrnukeppni þurfti til þó United hafi komist 3-0 yfir í leiknum. Þá var liðið stálheppið þegar mark Coventry í uppbótartíma framlengingar var dæmt af vegna afar tæprar rangstöðu.
Sir Jim Ratcliffe, nýjasti hluthafi í United og sá sem nú sér um knattspyrnuhlið félagsins, var í stúkuni á leiknum og einnig Avram og Joel Glazer, sem lengi hafa átt félagið. Horfðu þeir upp á pirraða stuðningsmenn United fylgjast með sínum mönnum en The Sun segir skoðun þeirra á Ten Hag hafa áhrif á framtíð hans.
United datt úr leik í riðlakeppni Meistaradeildarinnar fyrir áramót og er nánast öruggt að liðið endar ekki í Meistaradeildarsæti í vor. Hætta er á því að liðið hafni í áttunda sæti, sem yrði versti árangur United í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.
Liðið getur bjargað andlitinu að einhverju leyti í úrslitaleik bikarsins gegn ógnarsterku liði Manchester City. Samkvæmt þessum fréttum breytir sá leikur þó engu um framtíð Ten Hag sem er á útleið.