Katrín Jakobsdóttir, fyrrum forsætisráðherra og nú forsetaframbjóðandi, var í skemmtilegu spjalli í útvarpsþættinum FM95BLÖ fyrir helgi. Þar var hún meðal annars spurð að því hvaða einstaklingum úr heiminum hún myndi vilja bjóða í mat á Bessastöðum, nái hún kjöri.
„Þú nefndir áðan hvort ég myndi ekki bjóða Jurgen Klopp (stjóra Liverpool) og ég er alveg svakalega spennt fyrir því,“ sagði Katrín, sem er mikill stuðningsmaður Liverpool.
„Ég er náttúrulega United-maður svo ég myndi ekki bjóða honum,“ skaut þáttastjórnandinn Auðunn Blöndal inn í.
„Hann er miklu meiri stemningsmaður en ykkar maður, fyrirgefið,“ sagði Katrín þá og á þar við Erik ten Hag, stjóra Manchester United.
Katrín nefndi annan aðila úr heimi íþrótta í þessum vangaveltum. Það var norski hlauparinn Jakob Ingebrigtsen. „Ég er að hugsa um norrænu tenginguna sem forsetinn þarf að hugsa um,“ sagði Katrín létt í bragði.