Sigmar gerir þetta að umtalsefni í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
„Það er algengur misskilningur að strútar stingi höfðinu í sandinn þegar þeir standa frammi fyrir ógn. Orðatiltækið og misskilningurinn gengur út á að hægt sé að útiloka allt óþægilegt með því einu að horfa annað. En þótt stærstu fuglar heims séu saklausir af því að afneita vondum staðreyndum með því að bora höfðinu ofan í jörðina þá tíðkast sú sérkennilega háttsemi í óeiginlegri merkingu hér á landi. Stjórnvöld hafa nánast gert það að listgrein að líta undan þegar óþægilegur veruleikinn bankar upp á,“ segir Sigmar.
Hann segir að þegar rætt er um fjárlög og fjármálaáætlun glymji í eyrum þeirra sem sitja á Alþingi að staða heimilanna sé góð.
„Vanskil eru ekki mikil, er sagt. Meðaltölin eru fín og jafnvel vitnað í einhver fabríkeruð gröf með ótrúlega hentugum upphafspunkti. Þau eiga að sýna að þótt langvarandi verðbólgan sé svimandi há og góð rauðvínsprósenta á ofurvöxtunum séu fjölskyldur landsins bara í fínum málum. Í raun engin ástæða til að ergja sig á þessu efnahagslega skrúfstykki. Svona málflutningur er blaut tuska framan í venjulegt fólk, millistéttina, sem er að sligast undan verðbólgu og séríslenska vaxtaokrinu. Afborganir af húsnæði hafa hækkað um 100-200 þúsund á mánuði og verðtryggðu lánin hækka hratt.“
Sigmar bendir á niðurstöður nýrrar könnunar sem sýnir að vextir og verðbólga hafi mikil áhrif á heimilisbókhald 70 prósenta heimila. Einungis 15 prósent segja áhrifin lítil.
„Heimilin skulda um 100 milljarða í yfirdráttarlán sem eru ekkert annað en illa dulin vanskil á ófyrirleitnum afarkjörum. Vextirnir eru 17 prósent! Slík vaxtapíning af 100 milljörðum er vissulega mikil búdrýgindi fyrir fjármálakerfið en ekkert annað en klafi um háls heimilanna. Það þekkja allir sem neyðst hafa til að taka yfirdrátt, enda vextirnir nær því sem handrukkarar ákvarða einhliða á svarta markaðnum en því sem tíðkast í siðuðum samfélögum.“
Sigmar heldur áfram:
„Þetta er hálfgerð sturlun. Auðvitað er það svo að 100 milljarða yfirdráttur heimilanna, samofinn þrálátri verðbólgu og stýrivöxtum sem hvergi eru hærri í Evrópu nema í Rússlandi og Úkraínu, hefur gríðarleg áhrif á heimilisbókhaldið. Þeir sem halda öðru fram eru búsettir í einhverjum hliðarveruleika sem er handan skynjunar almennings sem fær kvíðakast í hvert skipti sem skottast er út í búð eða heimabankinn opnaður.“
Sigmar segir að staða heimilanna sé ekki góð og fólk framfleyti sér ekki í vafasömum línuritum stjórnvalda. Þá sé það lítil huggun að geta flúið endalaust á milli lánaforma með húsnæðislánin sín. Þeir sem kjósa að lækka afborganirnar séu nefnilega um leið að hækka lánin sín harkalega í þessari verðbólgu.
„Verðtryggingin sér til þess en hún er þjóðarrétturinn á hlaðborði þeirra fjölbreyttu fjármálaafurða sem íslenska krónan hefur getið af sér. Það er nefnilega svo að þótt krónan fari einstaklega illa með íslensk heimili og fyrirtæki þá er hún atvinnuskapandi fyrir fjármálastofnanir. Þar ríkir aðdáunarverður nýsköpunarvilji þegar hanna þarf úrræði og ný lánaform fyrir skuldsetta Íslendinga sem flýja örvæntingarfullir úr einu víginu í annað undan vel þekktum einkennum krónuhagkerfisins. Í þeirri þjónustu við skuldara hefur öllum aðgerðum verið beitt, nema þeirri að skera burt sjálft meinið.“
Sigmar segir að lokum að venjulegar fjölskyldur séu að kikna undan þessu vaxtaokri og verðbólgubrjálæði.
„Þær draga saman seglin, neyta sér um útgjöld, sumarfrí og jafnvel nauðsynjar til að bregðast við. Versti óvinur þessara fjölskyldna er sá pólitíski veruleiki að stjórnvöld annaðhvort sjá þetta ekki eða koma sér ekki saman um aðgerðir. Í stað þess að fara betur með peninga almennings í ríkisrekstrinum er ríkið rekið með halla ár eftir ár sem er auðvitað ekkert annað en olía á verðbólgubálið. Þjóðsagan um strútinn er raunveruleiki ríkisstjórnarinnar.“