Íþróttafréttamaðurinn, Valtýr Björn Valtýsson biður Viðar Örn Kjartansson framherja KA afsökunar á því að hafa farið út með frétt í þætti sínum þar sem því var haldið fram að KA væri að rifta samningi sínum við Viðar.
Valtýr baðst afsökunar í þætti sínum Mín skoðun sem kom út um helgina. Í þættinum á undan höfðu Valtýr og þeir sem eru með honum í þættinum sagt að búið væri að rifta samningi Viðars hjá KA.
Valtýr er miður sín yfir því að hafa farið út með slíka frétt sem ekki reyndist fótur fyrir. Viðar samdi við KA um páskana og hefur komið inn sem varamaður í fyrstu leikjum Bestu deildarinnar.
„Ég ætla að byrja þáttinn á því að koma með afsökunarbeiðni, innilega afsökunarbeiðni til Viðars Arnars Kjartanssonar. Ég sagði í síðasta þætti ýmislegt um hann, riftun og fleiri hluti,“ sagði Valtýr í upphafi þáttarins að þessu sinni.
Valtýr segist hafa treyst heimildarmanni sínum fyrir þessu en fengið síðar staðfest að þetta væri tóm vitleysa.
„Þetta er algjörlega ósatt, sá heimildarmaður sem ég hélt að væri í lagi hjá mér var það ekki. Annar heimildarmaður sem er pottþéttur sagði mér að þetta væri algjört kjaftæði, þetta er algjört kjaftæði.“
„Ég vil biðja Viðar innilega afsökunar og ég vona að hann taki við þessari afsökunarbeiðni. Þetta var tóm vitleysa.“
Valtýr ítrekað að allt sem sagt var í þættinum um Viðar og ástæður þess að KA hefði átt að hafa rift samningi hans væri ekki satt „Heimildirnar voru ekki réttar og ekki góðar. Þetta er algjört rugl, við biðjumst afsökunar á öllu því sem við sögðum.“
Viðar Örn er 34 ára gamall framherji sem samdi við KA eftir tíu ára feril í atvinnumennsku þar sem hann raðaði inn mörkum en KA-menn vonast eftir því að hann finni sitt form á allra næstu vikum eftir dapurt gengi í upphafi Bestu deildarinnar.