Lögreglan hefur sleppt tveimur mönnum úr gæsluvarðhaldi sem voru handteknir vegna manndrápsins í Grímsnesi á laugardag.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu Lögreglunnar á Suðurlandi.
Fjórir erlendir menn voru handteknir vegna manndrápsins í sumarbústað í Kiðjabergi. Þeir höfðu verið að vinna við að smíða bústað þar nálægt.
„Nú fyrir stundu tók embætti Lögreglustjórans á Suðurlandi ákvörðun um að aflétta gæsluvarðhaldi yfir tveimur einstaklingum sem úrskurðaðir höfðu verið í gæsluvarðhald til miðvikudagsins 24.04.2024. Hafa þeir því verið látnir lausir,“ segir í tilkynningunni. „Gæsluvarðhaldsúrskurðir hinna tveggja standa að óbreyttu til 30.04.2024.“
Að sögn lögreglu er rannsóknin umfangsmikil en miðar ágætlega og er í fullum gangi. Ekki verða veittar frekari upplýsingar að svo stöddu.