fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Pressan

Hryllilegur dauðdagi Nicole Brown Simpson og Ronald Goldman

Ritstjórn Pressunnar
Mánudaginn 22. apríl 2024 22:00

Nicole Brown Simpson, O.J. Simpson og Ron Goldman. Mynd: Skjásot/Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ruðningsleikmaðurinn og leikarinn O.J. Simpson lést nýlega en á tíunda áratug síðustu aldar var hann sakborningur í frægasta morðmáli síðari tíma. Hann var ákærður fyrir að myrða fyrrverandi eiginkonu sína Nicole Brown Simpson og vin hennar Ronald Goldman sem var oftast kallaður Ron. Málið tvístraði bandarísku þjóðfélagi. Svartir borgarar trúðu margir hverjir einlæglega á sakleysi hins dáða íþróttamanns enda litu þeir svo á að hann væri einn af þeim, svartur maður sem þyrfti að líða fyrir ofríki lögreglu og ákæruvalds sem væru gegnsýrð af kynþáttahatri. Hin látnu voru bæði hvít og hvítir borgarar voru líklegri til að trúa á sekt O.J. Simpson.

Eins og flestir ættu að vita var hann á endanum sýknaður en sumir svartir meðlimir kviðdómsins viðurkenndu síðar að þeir hefðu alltaf ætlað sér að sýkna hann sama á hverju gengi í réttarhöldunum. Einn þeirra, kona að nafni Carrie Bess, viðurkenndi það fúslega í heimildarmynd ESPN, OJ:Made in America, að hún og fleiri svartir kviðdómendur hefðu viljað hefna fyrir Rodney King málið en hvítir lögreglumenn í Los Angeles höfðu 1992 verið sýknaðir af ákæru um að ganga í skrokk á King, sem var svartur, þrátt fyrir myndbandsupptöku af aðförum þeirra. Kom dómurinn af stað gríðarlegum óeirðum í Los Angeles.

Bess var spurð í heimildarmyndinni hvað henni finndist um grimmilegan dauðdaga Nicole Brown Simpson og Ron Goldman. Hún fór ekki í grafgötur með að henni stæði á sama. Dauðdagi þeirra tveggja hefur fallið nokkuð í skuggann af réttarhöldunum og sýknudómnum og í tilefni af andláti O.J. Simpson er ekki úr vegi að rifja upp hversu hrottalegan dauðdaga fyrrverandi eiginkona hans og barnsmóðir og vinur hennar hlutu. Viðkvæmir eru varaðir við lýsingum á áverkum hinna látnu.

Súrnaði fljótt

Nicole fæddist í Frankfurt í Þýskalandi 1959. Faðir hennar var bandarískur og móðir hennar var þýsk. Hún var næstelst í hópi fjögurra dætra foreldra sinna. Fjölskyldan flutti til Kaliforníu í Bandaríkjunum þegar Nicole var unglingur. Nicole blómstraði í skóla og var vinamörg og vinsæl.

Þegar hún var 18 ára hitti hún O.J. Simpson á klúbbi nokkrum í hverfi ríka fólksins í Los Angeles, Beverly Hills, þar sem hún starfaði. Simpson var 12 árum eldri og þótt hann væri giftur faðir var hann ekkert hikandi við að gera Nicole það ljóst að hann hefði áhuga á henni. O.J. skildi síðar við eiginkonuna og giftist Nicole 1985.

Nicole og O.J. eignuðust tvö börn saman, dótturina Sydney og soninn Justin. Hjónabandið súrnaði hins vegar hratt. O.J. hélt ítrekað framhjá Nicole og hún hafði margsinnis samband við lögreglu vegna heimilsofbeldis af hans hálfu. Hún var afar óánægð með þær litlu afleiðingar sem ofbeldið virtist hafa fyrir mann hennar. Hann var ekki fjarlægður af heimilinu, einu sinni ákærður þó en hlaut aðeins dóm sem hljóðaði upp á tveggja ára skilorð, 120 klukkutíma samfélagsþjónustu og smávægilega sekt.

Þau skildu á endanum 1992.

Sætti sig ekki við endalokin

Nicole kom sér fyrir á nýju heimili í Brentwood hverfinu í Los Angeles ásamt börnunum. Hún var eins og fyrir skilnaðinn heimavinnandi húsmóðir en O.J. virtist ekki sætta sig við að hjónabandinu væri lokið. Hann var afar afbrýðisamur og elti Nicole út um allt. Hún tók oftast eftir því og var ekkert að fela að hún væri dauðhrædd við eiginmann sinn fyrrverandi.

Samt sem áður tjáði hún vinkonum sínum að hún vildi hefja samband við O.J. að nýju þegar það gekk loks eftir fór hins vegar allt í sama farveg, Nicole hringdi í lögregluna eftir að O.J. beitti hana ofbeldi.

Að sögn var hún í maí 1994 endanlega tilbúin til að slíta sambandinu og hafði meðal annars skilað armbandi sem O.J. hafði gefið henni í afmælisgjöf.

Um þetta leyti hafði hin 35 ára gamla Nicole vingast við Ron Goldman sem var 25 ára gamall og starfaði sem þjónn á veitingastað þar sem hún var tíður gestur. Einhverjir töldu þau eiga í ástarsambandi en Goldman fullyrti að svo væri ekki. Hann var síðar sagður hafa fengið að keyra Ferrari-bifreið Nicole en vinur þeirra beggja sagði við Goldman að þessi samskipti við Nicole gætu skapað vandræði fyrir hann.

Þann 12. júní 1994 fór Nicole ásamt móður sinni, börnum og fleiri fjölskyldumeðlimum að borða á veitingastaðnum þar sem Goldman vann. Móðir Nicole gleymdi hins vegar gleraugunum sínum á staðnum og Goldman ákvað að skjótast með þau heim til Nicole. Sú ákvörðun átti eftir að kosta hann lífið.

Talið er líklegt en þó ekki öruggt að Goldman hafi komið að heimili Nicole í þann mund sem morðinginn var að ráðast á hana fyrir utan heimilið. Verksummerki á vettvangi þóttu benda til að Goldman hefði hlaupið í áttina að Nicole. Hún var stungin 12 sinnum en hann 25 sinnum. Nicole var einnig skorin svo djúpt á háls að höfuðið fór næstum af.

Strax grunaður en sýknaður þrátt fyrir sterk sönnunargögn

O.J. var strax grunaður um verknaðinn og þegar málið fór fyrir rétt, í Los Angeles, í byrjun árs 1995 vakti það heimsathygli. Þar sem um var að ræða hrottalegt morð sem frægur svartur einstaklingur var ákærður fyrir að fremja og hin látnu voru hvít þá spilaði kynþáttur stórt hlutverk í réttarhöldunum, enda voru aðeins tvö og hálft ár frá áðurnefndu Rodney King máli.

Í réttarhöldunum voru kynnt til sögunnar ýmis sönnunargögn sem virtust benda mjög til sektar O.J. Simpson. Þeirra á meðal var að blóð úr Simpson fannst á vettvangi og hann var með skurð á fingrinum þegar lögreglan ræddi fyrst við hann. Blóðug skóför á vettvangi pössuðu við skó Simpson og hár fannst á skyrtu Goldman sem passaði fullkomlega við hárið á höfði Simpson.

Lögmenn Simpson með Johnnie Cochran í broddi fylkingar gerðu mikið úr þeirri kenningu sinni að Simpson væri saklaust fórnarlamb lögreglunnar í Los Angeles sem hefði farið á eftir honum eingöngu vegna kynþáttar hans. Þessi málflutningur virkaði vel á kviðdóminn en eins og áður sagði voru margir meðlima hans staðráðnir í upphafi að sýkna Simpson. Þessir meðlimir sem og svartir borgarar út um alla Los Angeles og öll Bandaríkin höfðu fengið að kenna á kynþáttahatri og voru þar með móttækilegri fyrir fullyrðingum um að hér væri á ferðinni enn eitt tilfellið af slíku.

O.J. Simpson var sýknaður en fjölskyldur hinna látnu áttu bágt með að trúa að réttarhöldin hefðu á endanum farið að snúast meira um kynþáttamál en að tveir einstaklingar hefðu verið myrtir á grimmilegan hátt.

Fjölskyldur Nicole Brown Simpson og Ron Goldman segjast hins vegar vona að þeirra verði minnst fyrir að vera meira en bara fórnarlömb morðingja.

Byggt á umfjöllun Allthatsinteresting.com.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Fannst eftir að hafa verið týndur í 30 ár – Var enn í sömu fötunum

Fannst eftir að hafa verið týndur í 30 ár – Var enn í sömu fötunum
Pressan
Fyrir 2 dögum

Svona oft þarftu að stunda kynlíf til að lengja lífið

Svona oft þarftu að stunda kynlíf til að lengja lífið
Pressan
Fyrir 3 dögum

Þetta gerist ef þú fjarlægir ekki köngulóarvef

Þetta gerist ef þú fjarlægir ekki köngulóarvef
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hver er munurinn á mandarínum og klementínum?

Hver er munurinn á mandarínum og klementínum?
Pressan
Fyrir 4 dögum

Sagði 13 ára syni sínum að hann væri aumingi af því að hann vildi ekki stunda kynlíf með vændiskonu

Sagði 13 ára syni sínum að hann væri aumingi af því að hann vildi ekki stunda kynlíf með vændiskonu
Pressan
Fyrir 4 dögum

Ráðgátan um bleika ofurbílinn leyst

Ráðgátan um bleika ofurbílinn leyst
Pressan
Fyrir 5 dögum

Rússar hóta að ráðast á Pólland: Skutu langdrægri eldflaug á Úkraínu í morgun

Rússar hóta að ráðast á Pólland: Skutu langdrægri eldflaug á Úkraínu í morgun
Pressan
Fyrir 5 dögum

Óvenjulegt mál – Dæmdur fyrir að lokka konuna sína úr landi

Óvenjulegt mál – Dæmdur fyrir að lokka konuna sína úr landi