fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Karlar kaupa mest falsaða merkjavöru og íþróttaföt – Konur gleraugu og skartgripi

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 22. apríl 2024 09:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt könnun sem Maskína gerði fyrir Hugverkastofuna fyrr í mánuðinum finnst 46% Íslendinga stundum í lagi að kaupa falsaðar vörur og eftirlíkingar. Þá hafa 9% keypt falsanir eða eftirlíkingar síðastliðna 12 mánuði, mest á erlendum vefsíðum.

Niðurstöðurnar benda til að Íslendingar kaupi síður falsaðar vörur en aðrir Evrópubúar þrátt fyrir að háu hlutfalli þyki stundum ásættanlegt að kaupa slíkar vörur. Samkvæmt könnun á vegum Hugverkastofu Evrópusambandsins frá í fyrra hafa 13% Evrópubúa viljandi keypt falsaðar vörur síðasta árið og þriðjungur þeirra telur í lagi að kaupa falsaðar vörur, ef ekta vörur eru of dýrar.

 Gleraugu og sólgleraugu efst á listanum

Af þeim sem höfðu keypt falsaðar vörur eða eftirlíkingar höfðu 29% svarenda í könnun Maskínu keypt gleraugu eða sólgleraugu, 28% íþróttaföt, 28% töskur, 21% skartgripi og 21% merkjavöruskó, aðra en íþróttaskó. Meðal annarra falsaðra vara sem svarendur höfðu keypt má nefna tæknivörur ýmiskonar, íþróttaskó, list- og skrautmuni, úr og húsgögn. Þetta eru sömu vörur og oftast eru nefndar í sambærilegum erlendum könnunum. Langflest nefna lægra verð sem helstu ástæðu þess að hafa keypt falsaða vöru.

 Munur á vöruvali milli kynja

Lítill munur var á milli kynjanna í svörum um hvort þau hefðu keypt falsaðar vörur en nokkur munur var í vöruvali þar sem konur keyptu helst gleraugu eða sólgleraugu (35%) og skartgripi (27%) en karlar merkjavöruföt (27%) og íþróttaföt (29%). Meðal ungs fólks, 18-29 ára höfðu 13,9% svarenda keypt falsaðar vörur eða eftirlíkingar síðasta árið. Það er mun lægra hlutfall en í könnun Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) meðal 15-24 ára íbúa Evrópusambandsins frá 2023 en í henni reyndist 26% þess aldurshóps hafa keypt falsaðar vörur á netinu síðasta árið.

 Mikilvægt að virða hugverkaréttindi

Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar segir að könnunin sé liður í að vekja almenning til umhugsunar mikilvægi þess að virða hugverkaréttindi og kaupa ekki falsaðar vörur. „Það eru margar ástæður fyrir því að fólk ætti frekar að velja ekta vörur en eftirlíkingar og falsanir. Í fyrsta lagi eru eftirlíkingar auðvitað oft af miklu lélegri gæðum. Í sumum tilfellum þýðir það fyrst og fremst verra útlit og lélegri endingu en í sumum tilfellum geta lélegri gæði hreinlega orðið til þess að vara getur valdið skaða. Það má t.d. nefna fölsuð lyf, snyrtivörur, varahluti í bifreiðar og flugvélar og jafnvel hluti eins og sólgleraugu og fatnað. Svo veit maður náttúrulega ekkert um þær aðstæður sem falsaðar vörur eru framleiddar við en mikið af þeim falsaða varningi sem er til sölu á netinu og annars staðar er framleiddur af skipulögðum glæpasamtökum sem einnig stunda fíkniefnasölu, barnaþrælkun og mansal. Svo er að sjálfsögðu mikilvægt að bera virðingu fyrir þeim sem eiga hugverkin og hafa lagt hugvit, tíma, metnað og fjármagn í að þróa þau. Neytendur vita hins vegar hvaðan ekta varan kemur, hvernig hún er unnin og jafnan má gera ráð fyrir því að ábyrgð fylgi á gæðum og öryggi vörunnar frá framleiðanda.“

 Sýning á Hönnunarmars

Hugverkastofan, Epal og React – alþjóðlegt samstarfsnet fyrirtækja gegn fölsunum, bjóða til sýningar á Hönnunarmars dagana 23.-27. apríl, í verslunum Epal í Skeifunni og á Laugavegi, í tilefni af Alþjóðahugverkadeginum 26. apríl. Markmiðið er að vekja athygli á því af hverju við ættum að velja ekta vörur, virða hugverkaréttindi og forðast að kaupa eftirlíkingar. Hægt verður að skoða sýnishorn af fölsuðum vörum og bera saman við ekta fyrirmyndir og taka þátt í léttum spurningaleik um hvaða vörur eru ekta.

Um könnun Maskínu

Könnun Maskínu fyrir Hugverkastofuna um kaup á eftirlíkingum og fölsuðum vörum ásamt viðhorfi til slíkra kaupa var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Svör voru vegin samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar um kyn, aldur, búsetu og menntun, þannig að þau endurspegla þjóðina prýðilega. Við vigtun svara getur birst örlítið misræmi í fjöldatölum og hlutföllum sem orsakast af námundun.

Könnunin fór fram frá 5. til 11. apríl 2024 og voru svarendur 968 talsins.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót
Fréttir
Í gær

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi
Fréttir
Í gær

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“