Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að hæð vestur af Írlandi þokist nú í átt að landinu.
„Útlit fyrir fremur hægan vind og víða léttskýjað í dag. Hiti að deginum 5 til 13 stig, mildast sunnan og vestanlands. Ekki verða miklar breytingar í veðri næstu daga, milt og úrkomulítið. Um miðja viku verður áttin norðlægari og þá fer að kólna á Norður- og Austurlandi,“ segir Veðurfræðingur
Eins og sést á meðfylgjandi mynd má gera ráð fyrir tveggja stafa hitatölum víða á landinu, til dæmis á suðvesturhorninu, á Norðurlandi og á Suðurlandi þar sem mildast verður á Kirkjubæjarklaustri, eða 13 stiga hiti í mjög hægum vindi.
Á þriðjudag:
Hæg breytileg átt og léttskýjað, en skýjað við vesturströndina. Hiti 5 til 13 yfir daginn, hlýjast á Suðurlandi.
Á miðvikudag:
Austan og norðaustan 3-8 m/s. Skýjað með köflum vestanlands og hiti 6 til 12 að deginum. Yfirleitt bjart á Norður- og Austurlandi, en skýjað við ströndina. Hiti 1 til 5 stig.
Á fimmtudag og föstudag:
Fremur hæg norðlæg átt. Léttskýjað á Suður- og Vesturlandi og hiti 5 til 11 stig yfir daginn. Skýjað með köflum norðan- og austanlands með hita kringum frostmark.
Á laugardag:
Norðan- og norðaustanátt með éljum á norðaustanverðu landinu og hita nálægt frostmarki, en bjartviðri sunnan heiða með hita 4 til 8 stig yfir daginn.
Á sunnudag:
Útlit fyrir hæga breytilega átt og víða dálítil él. Hiti breytist lítið.