fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Heilt íþróttafélag snerist gegn 12 ára dreng sem sakaði Dalslaugarníðinginn um kynferðisbrot – „Ég vissi að perrinn næðist, gæti ekki hætt“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 21. apríl 2024 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 2006 snerist heilt íþróttafélag gegn ungum dreng og móður hans fyrir að hafa sakað karlmann sem var virkur í unglingastarfi félagsins um kynferðisbrot í keppnisferð. Drengurinn var vændur um lygar og sagður illa innrættur. Þremur árum síðar var þessi sami karlmaður dæmdur fyrir hrottaleg brot gegn öðrum pilt og nú nýlega voru foreldrar í Úlfarsárdal varaðir við því að maðurinn væri að leitast við að spjalla við drengi í skólasundi.

Starfsfólk Dalslaugar og Dalskóla í Úlfarsárdal tóku höndum saman nýlega og kortlögðu heimsóknir karlmanns í laugina á tímum sem grunnskólabörn sækja skólasund. Við þessa rannsókn kom í ljós að téður maður hefur bæði hlotið dóm fyrir kynferðisbrot gegn dreng sem og fyrir að hafa mikið magn barnaníðsefnis í fórum sínum. .

Forráðamenn barna voru varaðir við og tekið fram að maðurinn hafi leitast eftir því að spjalla við unglingsdrengi í skólasundi og vinna sér inn traust þeirra.

Greindi DV í framhaldinu frá því að um væri að ræða Jón Sverri Bragason sem var árið 2009 dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir brot gegn dreng með ódæmigerða einhverfu. Árið 2014 var hann svo gripinn í Leifsstöð með gífurlegt magn af barnaníðsefni.

Drengurinn sem Þróttur trúði ekki

Áður en Jón Sverrir var þó dæmdur árið 2009 hafði annar drengur sakað hann um brot. Á þessum tíma var Jón Sverrir virkur í unglingastarfinu hjá Þrótti, þar sem hann átti barn sem æfði með félaginu. Var hann í miklum metum, fylgdi drengjunum í keppnisferðir og tók að sér dómarastörf.

Sumarið 2006 var haldið í keppnisferð á Akureyri sem markaði upphaf margra ára martraðar hjá dreng og móður hans. Drengurinn flúði úr rými sem drengirnir deildu meðal annars með Jóni Sverri og leitaði uppi móður sína sem gisti skammt frá. Drengurinn sagði móður sinni að Jón Sverrir hefði káfað á honum og móðirin kærði brotið til lögreglu.

Viðbrögð Þróttar voru að saka drenginn um óþekkt. Félagið stóð með Jóni og upplifði móðir drengsins hreint og beint einelti gegn fjölskyldu sinni. Sonur hennar var sagður illa innrættur lygari, en fyrir barn á 13. ári eru slíkar ásakanir gífurlega þungbærar sem og að upplifa að vera ekki trúað. Saksóknari felldi loks málið niður með vísan til þess að orð stæði gegn orði. Þremur árum eftir keppnisferðina var Jón Sverrir dæmdur fyrir hrottaleg og ítrekuð brot gegn dreng á svipuðum aldri. Brot þau sem hann var sakfelldur fyrir voru að eiga sér stað á sama tímabili og keppnisferðin til Akureyrar átti sér stað á.

Fékk áfram að starfa með börnum þrátt fyrir kæru

Eftir að Jón Sverrir var dæmdur bloggaði móðir drengsins um málið undir yfirskriftinni: „Ég vissi það að perrinn næðist, gæti ekki hætt“ og sagði að hún og sonur hennar fagni því að heimurinn sjái nú hvaða mann Jón, eða Nonni eins og hann er kallaður, hafi að geyma. Ekki breyti það því þó að enginn hafi beðið fjölskyldu hennar afsökunar. „Nú mega margir skammast sín, þeir taka það til sín sem eiga“.

Þróttur hafi staðið með níðingnum og leyft honum að halda áfram að taka þátt í starfi félagsins, með unglingsdrengjum. Móðirin taldi það sína skýrt áherslur félagsins að ekki hafi verið haldinn fundur um mál Jón Sverris eftir að hann var dæmdur, heldur eftir að fjallað var um dóminn í fjölmiðlum og móðirin byrjaði að blogga.

DV fjallaði um bloggið árið 2009 og fékk þá svör frá Þrótt að Jón hafi aðeins verið einn af fjölmörgum foreldrum barna í félaginu og séu meint brot hans ekki á ábyrgð félagsins.

Engu að síður má sjá að Jón Sverrir var að dæma leiki unglingsdrengja allt þar til rétt áður en dómur féll gegn honum í héraði.

Hélt aukaæfingar og bauð drengjum í sund

Móðirin skrifaði á blogginu að það hafi tekið yfirvöld á annað ár að ákveða að fella mál sonar hennar niður. Þetta sé langur tími fyrir óharðnaðan ungling að fá úr því skorið hvort hann sé lygari eða ekki.

„Það er langur tími fyrir barn að bíða eftir úrskurði um að hann hafi ekki verið að búa til ljóta sögu um góðan mann. Vinsæll hjá öllum hinum strákunum í líðinu. Alltaf með strákunum fyrir mótið. Bjó til aukaæfingar sem voru alla virka daga þegar ekki voru æfingar. Æfingadaga stóð hann við hlið þjálfara og var svona aðstoðarþjálfari í huga drengsins.

Á sínum æfingum verðlaunaði Nonni strákana með prinspóló fyrir skoruð mörk. Drengurinn, þá 11 ára, var ánægður með það enda skotdjarfur framherji og hittinn Suma daga bauð Nonni upp á sundferðir.“

Móðirin greindi eins frá því að hafa mætt erfiðu viðmóti hjá lögreglu sem hafi meðal annars reynt að neita henni um gögn málsins sem hún átti þó rétt á. Hún hafi fengið einhver gögn með því að mæta á lögreglustöð með upptökutæki og óska eftir að fá neitunina staðfesta með því móti. Öðrum gögnum væri hún enn að bíða eftir.

Þjálfari biðst afsökunar

Eftir að DV vakti athygli á blogginu bárust móðurinni skilaboð frá annars vegar móður annars drengs og þjálfara sem bæði voru í keppnisferðinni á Akureyri.

Hin móðirin furðaði sig á því að hafa ekki heyrt um meint brot Jóns Sverris fyrr en þremur árum eftir að það átti sér stað og það í frétt DV en ekki frá Þrótti.

„Við erum öll hér á heimilinu miður okkar. Við vorum á Akureyri á þessu móti með okkar son í sama félagi en í öðru liði og þinn og heyrðum af því morguninn eftir, að þinn sonur hafi hlaupið í burtu. Það var afgreitt sem óþekkt í honum – og við trúðum því. Verst finnst mér að ekkert hafi verið gert þá og að þetta mannógeð hafi verið þarna áfram. Minn sonur var um tíma á þessum „aukaæfingum“ og ég vildi að ég hefði vitað þá það sem ég veit núna í dag.“

Karlmaður sem var í ferðinni sem þjálfari tók einnig til máls í athugasemd og sagðist skulda móðurinni og syni hennar afsökunarbeiðni.

„Ég skulda þér og syni þínum afsökunarbeiðni. Ég var þjálfari í þessari ferð og svaf í herberginu þessa nótt og var einn af þeim sem trúðu ykkur ekki. En ég biðst innilegrar afsökunar á þessu, ég veit ekki hvort það breytir einhverju fyrir ykkur. Og ég vona einig að þið hafið fengið afsökunarbeiðni frá íþróttafélaginu.“

Móðirin sagði að það versta í hennar augum sé einmitt að Þróttur hafi staðið með Jóni Sverri gegn syni hennar. Þannig fékk Jón áfram að mæta á æfingar, jafnvel eftir að hann var kærður og áður en málið var fellt niður. Þar gat hann staðið og horft á son hennar.

Vonaði móðirin að Þróttur og aðrir sem skrifuðu ásakanir sonar hennar á óþekkt, myndu hugsa sinn gang.

„Þá geta þeir sem hafa dæmt son minn lygara og illa innrættan kannski breytt hegðun sinn gagnvart honum. Tveggja ára tímabil eineltis og árása frá fullorðnu fólki er ekkert sem neinn unglingur þolir. Við viljum uppreisn æru.“

Vinnur sér inn traust drengja

Eftir að málið í Dalslaug kom upp nú fyrir skömmu ræddi blaðamaður DV ræddi við móður þess drengs í Dalskóla sem Jón Sverrir hafði átt hvað mest samskipti við. Hún sagði son hennar bera Jóni góða söguna og hafi hann borið fullt traust til hans. Móðirin tók fram að Jón Sverrir hafi mætt á fótboltaæfingar með drengjunum og kynnt sér stundaskrá þeirra í skóla og æfingatöflu hjá íþróttafélaginu FRAM.

Málið hefur vakið mikinn óhug, þá sérstaklega að menn með jafn hrottalegt brot gegn börnum á bakinu geti óhindrað fylgst með þeim í sundi og við æfingar.

Ræddi DV við afbrotafræðinginn Helga Gunnlaugsson en hann taldi hugmyndir um opinbera skráningu barnaníðinga veita falskt öryggi og þvert á það sem margir halda – ekki vernda börn frá brotum. Brennimerking af þessu tagi geti í raun gert níðinga hættulegri. Helgi taldi þó mikilvægt að menn með kenndir sem þessar séu látnir gangast undir eftirfylgni.

Málið í Dalslaug fékk aðra nálgun heldur en máls drengsins í keppnisferðinni til Akureyrar. Mögulega skiptir þar helstu máli að í málinu 2006 hafði Jón ekki hlotið dóm fyrir barnaníð. Vekur það upp spurninguna hvort að fyrri sakfelling sé nauðsynleg til að börn í skóla- eða íþróttastarfi fái að njóta vafans. Ljóst er þó af málinu 2006 að þar fékk Jón að njóta vafans og fékk áfram að starfa með börnum allt þar til dómur féll í öðru máli. Því liggur fyrir að hann starfaði með börnum á meðan meint brot á Akreyri var til rannsóknar sem og það brot sem hann var svo sakfelldur fyrir.

DV hefur sent Þrótt fyrirspurn um hvort drengurinn í keppnisferðinni hafi hlotið afsökunarbeiðni, eða hvort slíkt standi til. Eins hvort félagið hafi í dag sett sér verklagsferla um hvernig tekið sé á því þegar grunur leikur á því að barn sem þar æfir hafi verið beitt kynferðisofbeldi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Grindvíkingar hentu 327 tonnum meira af sorpi í sumar en í fyrra

Grindvíkingar hentu 327 tonnum meira af sorpi í sumar en í fyrra
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Í gær

Dómur yfir manni sem varð konu sinni að bana á Akureyri veldur ólgu – „Það er allt siðferðislega rangt við þessa nafnleynd“

Dómur yfir manni sem varð konu sinni að bana á Akureyri veldur ólgu – „Það er allt siðferðislega rangt við þessa nafnleynd“
Fréttir
Í gær

Ætluðu að slaka á í Sky Lagoon en annað kom á daginn – „Vá! Þetta er brjálað“

Ætluðu að slaka á í Sky Lagoon en annað kom á daginn – „Vá! Þetta er brjálað“
Fréttir
Í gær

Síbrotamaður slær ekki slöku við þrátt fyrir margra liða ákæru – Fær gistingu í boði skattgreiðenda yfir hátíðarnar

Síbrotamaður slær ekki slöku við þrátt fyrir margra liða ákæru – Fær gistingu í boði skattgreiðenda yfir hátíðarnar
Fréttir
Í gær

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks