fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Eyjan
Sunnudaginn 21. apríl 2024 10:30

Baráttan um Bessastaði gæti verið stökkpallur inn á Alþingi

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og augljóst hefur verið undanfarna mánuði þá er það afar eftirsótt embætti að verða forseti Íslands. En jafnvel þó að draumurinn um starfið verði ekki að veruleika þá er ýmislegt upp úr því að hafa að standa í kosningabaráttunni.

Sumir frambjóðendur í gegnum tíðina hafa óspart flaggað því á erlendri grundu að þeir séu fyrrum forsetaframbjóðendur á Íslandi og hefur það opnað ýmsar dyr.

Þá felst mikil kynning í því að standa í baráttunni og í ár er það orðið á götunni að margir frambjóðendur sjái kosningabaráttuna sem stökkpall inn á Alþingi.

Hugsanlegur leiðtogi í Kraganum

Arnar Þór Jónsson, lögmaður, hefur til að mynda traustan stuðningsmannahóp. Að óbreyttu er ekki útlit fyrir að hann sé á leið til Bessastaða en hann mun nota kosningabaráttuna til þess að koma því kyrfilega á framfæri fyrir hvað hann stendur.

Sagt er að fyrir næstu Alþingiskosningar renni Miðflokkurinn hýru auga til Arnars Þórs og hann verði mögulega fenginn til þess að leiða lista flokksins í suðvesturkjördæmi.

Annar frambjóðandi sem gæti stokkið í fullum herklæðum frá baráttunni um Bessastaði yfir í bardaga um alþingissæti er Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir. Steinunn er nú þegar þjóðþekkt leikkona en hún hefur ekki mikla reynslu í hlutverki stjórnmálamannsins og mun máta sig í því hlutverki á næstu vikum.

Myndi Steinunn Ólína mögulega taka slaginn með Sósíalistum og gæti hjálpað til við að tryggja flokknum langþráð þingsæti.

Augljós valkostur sem ráðherra

Þá segir sagan að Halla Hrund Logadóttir sé einnig farin að vekja verulega eftirtekt fyrir framkomu sína. Hún er sögð vera á óskalista Samfylkingarinnar, ef atlagan að Bessastöðum geigar, og gæti henni staðið til boð að leiða flokkinn á Suðurlandi í næstu kosningum.

Ljóst er að það væri spennandi verkefni fyrir Höllu Hrund enda líkurnar á ráðherraembætti miklar og ljóst að ekki væri til hæfari umhverfis- orku- og loftslagsráðherra.

Sama gildir um Baldur Þórhallsson. Hann er fyrrum varaþingmaður Samfylkingarinnar en ljóst er að hann yrði afar frambærilegur leiðtogi fyrir flokkinn í næstu kosningum, standi hugur hans til þess.

Að lokum hafa gárungar nefnt það að ný vonarstjarna Sjálfstæðisflokksins gæti verið að fæðast í kosningabaráttunni. Miðað við skoðanakannanir þá nýtur Katrín Jakobsdóttir, einhverra hluta vegna, gríðarlegs stuðnings meðal kjósenda Sjálfstæðismanna og þeirra efnameiri í samfélaginu. Ef baráttan um Bessastaði tapast þá gæti Katrín því leyst úr formannskrísu flokksins!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt