Að mati bæjarstjóra Reykjanesbæjar er ekki hægt að draga í efa þá afstöðu starfsmanna sveitarfélags að þeim skorti hæfi við meðferð máls, það eitt að þeir sjálfir telja aðstæður fyrir hendi til að draga hlutleysi þeirra í efa sé fullnægjandi skýring fyrir vanhæfi. Þetta kom fram í svari bæjarstjóra Reykjanesbæjar, Kjartans Más Kjartanssonar, á fundi bæjarstjórnar á þriðjudag. Svar Kjartans kom í kjölfar ásakana frá fulltrúa minnihlutans um að hann væri að víkja sér undan erfiðri ákvarðanatöku með tilefnislausri yfirlýsingu um vanhæfi.
Kjartan Már lýsti sig vanhæfan til frekari aðkomu að undirbúningi fyrirhugaðs flutnings Bókasafns Reykjanesbæjar í Hljómhöll. Bæjarfulltrúi Umbótar, Margrét Þórarinsdóttir, krafðist þess að Kjartan rökstyddi vanhæfið sitt. Svar Kjartans barst á þriðjudag og samkvæmt Facebook-færslu Kjartans um málið tók Margrét svarið gott og gilt.
Rökstuðningurinn var á þá leið að samkvæmt hæfisreglu sveitarstjórnarréttar ber starfsmanni að víkja sæti við meðferð máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.
Almennt sé litið svo á að þegar starfs- eða nefndarmaður telur huglæga afstöðu sína slíka að draga megi hæfi hans í efa þá sæti slík afstaða ekki endurskoðun annarra. Tilgangur hæfisreglna sé að tryggja traust til ráðstafanna og aðgerða stjórnvalda, þ.e. að fyrirbyggja að starfsmaður fjalli um mál þar sem með réttu má efast um óhlutdrægni hans. Í svari sínu við fyrirspurn sagði Kjartan:
„Í ljósi langra og ríkra tengsla undirritaðs og fjölskyldu hans við starfsemi tónlistarskólans, baráttu fyrir aðstöðu skólans og að lokum aðkomu að stofnun Rokksafns Íslands og stjórnarmennsku þegar safninu var komið á koppinn, var það mat undirritaðs að þau tengsl væru með þeim hætti að almennt mætti ætla að viljaafstaða mótaðist af því.
Með vísan til þess, vandaðra stjórnsýsluhátta og að síðustu þannig að enginn vafi væri til staðar um ákvarðanir og ráðstafanir Reykjanesbæjar í kjölfarið vegna þessa mikilvæga máls, taldi undirritaður að rétt væri að víkja sæti í málinu, með vísan til þeirra sjónarmiða sem liggja að baki matskenndri hæfisreglu 2. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga.“
Margrét Þórarinsdóttir lagði fram bókun á fundi bæjarstjórnar þann 2. apríl þar sem hún sagði sérstakt að bæjarstjóri lýsti sig vanhæfan til frekari vinnu við undirbúning verkefnisins. Við blaði að bæjarstjóri sé ósáttur við samþykktar breytingar, en það eitt og sér geti varla valdið vanhæfi.
„Það eitt að vera ósammála er ekki grundvöllur fyrir ráðinn embættismann að lýsa sig vanhæfan. Stundum þarf að taka erfiðar ákvarðanir og þær lúta oftar en ekki að því að draga úr kostnaði og skera niður útgjöld. Kannski á bæjarstjórinn erfitt með að taka erfiðar ákvarðanir og vill komast hjá því að vera bendlaður við ákvarðanatöku sem er erfið, en engu að síður nauðsynleg. En þetta er nú bara hluti af því að vera bæjarstjóri.“
Ljóst er af svari Kjartans að hann telur sig ekki vera að koma sér undan erfiðum ákvörðunum heldur séu fyrir hendi réttmætar ástæður til að draga hæfi hans í efa. Kjartan Már var endurráðinn sem bæjarstjóri í síðustu sveitarstjórnarkosningum eftir að nýr meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Beinnar Leiðar var myndaður. Hann var fyrst ráðinn í embættið árið 2014, er rekstrarhagfræðingur að mennt en eins menntaður fiðluleikari og kennari. Hann sat áður í stjórn Hljómhallar og sat á árum áður í bæjarstjórn fyrir Framsókn en var óflokksbundinn þegar hann tók við starfi bæjarstjóra.