Hjónin, Alfred Helge Hansen, 82 ára, og Gaye Carole Hansen, 81 árs, fundust látin á lóð sinni í gærmorgun eftir að áhyggjufullur aðstandandi náði ekki sambandi við þau.
Þegar lögregla kom á vettvang gerði hrúturinn sig líklegan til að ráðast á laganna verði og var hann skotinn í kjölfarið með þeim afleiðingum að hann drapst.
Talsmaður fjölskyldunnar, Dean Burrell, sem var systursonur Gaye, segir að hjónin hafi sest í helgan stein fyrir nokkrum árum en verið með kindur, hrúta og nokkra nautgripi á býli sínu.
Talið er að hrúturinn hafi fyrst ráðist á Alfred þegar hann ætlaði að gefa honum að éta. Þegar Gaye var farið að lengja eftir honum fór hún út og réðst hrúturinn þá á hana.
Nágrannar og aðstandendur hjónanna segjast í samtali við Herald vera mjög brugðið yfir málinu enda hjónin afskaplega vel liðin af íbúum svæðisins. „Þau voru mjög gott fólk og áttu þetta ekki skilið,“ segir Burrell.
Hrútar geta verið árásargjarnir og óútreiknanlegir. Skemmst er að minnast umfjöllunar hér á landi ekki alls fyrir löngu en sumarið 2021 olli hrútur miklum skemmdum í gestastofunni á Þingvöllum þegar hann stangaði rúðu og gerði sig líklegan til að ráðast á þjóðgarðsverði.