Árshátíðin var haldin á Egilsstöðum síðustu helgi og nam kostnaður hátt í 100 milljónir króna. Málið kom til umræðu í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi á mánudaginn.
Starfsmönnum fyrirtækisins, sem er alfarið í eigu íslenska ríkisins, var flogið með breiðþotu Icelandair frá höfuðborgarsvæðinu austur á Egilsstaði þar sem gist var í tvær nætur. Þóra sagði í samtali við RÚV fyrr í vikunni og sagði að það hafi staðið til síðan 2020 að halda árshátíðina á landsbyggðinni en fresta hafi þurft árshátíðinni þrjú ár í röð vegna Covid-faraldursins og á síðasta ári hafi ekki gefist nægur tími til að halda árshátíðina utan höfuðborgarsvæðisins.
Fjöldi fólks gagnrýndi kostnaðinn og hefur þetta verið talsvert á milli tannanna á fólki í vikunni. Simmi og Hugi Halldórsson tóku hitamálið fyrir í hlaðvarpinu 70 mínútur.
Simmi byrjaði á því að lesa upp svar Þóru við gagnrýninni. Hún birti lokaða færslu um málið á Facebook á þriðjudaginn.
„Ég tók glöð þátt í þessari fínu árshátíð Landsvirkjunar. Flaug austur og keypti kjól í River á Egilsstöðum, fór í Vök og dansaði í íþróttahúsinu eftir heiðarlega lambakjötsmáltíð. Það var nú allur glamúrinn. Starfsfólkið í fatahenginu var í fjáröflun fyrir Hött, Bautinn og Valaskjálf sáu um veitingar o.frv.
Landsvirkjun er landsbyggðarfyrirtæki. Á hverju ári er hátt í helmingi starfsfólksins sem býr út um allt land ekið og flogið til Reykjavíkur á árshátíð og fundin gisting. Þegar því er snúið við er það skandall. Ég held að mannauðsdeildin sem skipulagði þennan viðburð, hafi alveg vitað að það er miklu ódýrara að fara til Brighton eða Amsterdam – eða vera bara í Reykjavík. Það var val fyrirtækisins að verja þessum fjármunum innanlands, í landsfjórðungi þar sem stór hluti tekna Landsvirkjunar verður til. Nýta innviði sem standa lítið notaðir á þessum árstíma og borga það sem það kostar að ferðast, gista, borða á Íslandi. Og NB það er algert rugl að kostnaðurinn hafi verið hálf milljón á mann, það er tilbúningur. Ég held að það hafi verið um 450 manns mættir.“
„Má ég segja þér, ég er sammála henni,“ sagði Simmi að upplestri loknum.
„Það er alltaf verið að tína til einhvern svona tittlingaskít. Ég vil bara minna á það að það eru fullt af fyrirtækjum hér í borg og hér á landi sem voru að fljúga öllu fyrirtækinu erlendis [í fyrra]. Og ég hugsaði bara ókei… Samfélagsleg ábyrgð er eitthvað sem stór fyrirtæki eiga að bera ríkulega í brjósti. Mörg fyrirtæki eyða milljónum í að auglýsa hvað þau bera mikla samfélagslega ábyrgð. Við vorum stödd í verðbólgu, og erum enn, vorum það í fyrra og seðlabankastjóri var að biðja fólk um að fara ekki til Tene, bara ekki fara með peninginn úr landi. Heyrðu, þessi stóru fyrirtæki voru að fljúga þúsundum manna í árshátíðaskemmtanir í Austur-Evrópu og Evrópu, út um allt.“
Hugi sagði þá: „Hörku tekjulind fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki.“
„Nei, nei. Allur peningurinn fer úr landi,“ segir Simmi og nefnir erfiðleikana sem ferðaþjónustu- og veitingabransinn fór í gegnum í kjölfar Covid og samkomutakmarkanna.
„Á sama tíma vorum við að koma út úr Covid þar sem íslenskir veitingamenn, íslenskir hótelrekendur, gistináttastaðir og samkomusalir og annað, voru að búa við algera þurrð. Löptu dauðann úr skel í Covid, svo þegar Covid var búið fóru þessi stóru fyrirtæki, sem meira að segja lifðu kannski ágætis lífi í Covid, því sum fyrirtæki blómstruðu í Covid, þá fóru þau með peninginn út,“ segir Simmi.
„Það er rétt sem Þóra segir hérna, það er hægt að fara í svona ferð erlendis með ódýrt vinnuafl, ódýrari mat, ódýrari gistingu og þú kemur svona út á pari en skemmtileg upplifun fyrir starfsmenn. Ég er alveg til í að segja að það er allt í lagi, en þegar það er verðbólguskot hér á Íslandi þá ferðu ekki út með peninginn, segir hann.
„Þetta er ekta svona, úlfaldi úr mýflugu, gerum grín.“
Þeir ræða síðan um viðbrögð Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, og Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, við málinu.
Inga tók þetta upp í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag og beindi spurningum sínum til Bjarna, sem tók undir að um verulegan kostnað væri að ræða og sagði mikilvægt að opinber fyrirtæki gættu hófs en að Landsvirkjun stæði vel og skilaði miklum arði til ríkisins.
„Inga Sæland, hræsnari Íslands, hvað er hún að… hún var bara á orginu yfir þessu,“ sagði Hugi.
„Hún skýtur stundum yfir markið en hún er oft bara mjög fín. En sko, punkturinn minn er þessi: Ég er mjög ánægður með að þetta var haldið innanlands og mér finnst bara öll fyrirtæki eigi að sýna þá samfélagslegu ábyrgð að eiga í viðskiptum innanlands, sérstaklega á tímum eins og þessum.“
Sjá einnig: Bjarni og Inga nokkuð sammála um að kostnaður við árshátíð Landsvirkjunar hafi verið verulegur