Indriði Einar Reynisson, læknir hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, telur skriffinskubáknið sem læknum er ætlað að sinna vera allt of mikið. Mikill tími fari í að skrifa upp á vottorð af ýmsum toga og stundum sé hann beðinn að skrifa upp á skrýtin eða tilgangslaus vottorð.
„Ég votta reglulega til félagsþjónustunnar að einstaklingur sé óvinnufær og óendurhæfingarfær vegna fíknivanda eða andlegs/líkamlegs sjúkdóms. Stundum biðja þeir um vottorðið á 2-3 mán fresti þrátt fyrir að allir vita að ástandið er óbreytt,“ segir Indriði í færslu á samfélagsmiðlum. Færlsu sem hefur fengið mikla dreifingu og jákvæð viðbrögð.
Indriði listar upp ýmis konar vottorð og tilvísanir sem virka margar undarlegar og jafnvel spaugilegar.
„Ég var beðinn um leikfimisvottorð fyrir barn sem hafði brotnað í íþróttum og var í gipsi. Greinilega eru allir blindir á þetta gips nema læknirinn ég. Ég neitaði vottorðinu,“ segir Indriði. „Einu sinni sendi ég barn á landspítalann til mats á sjúkdómi. Svo var hringt í mig daginn eftir og ég beðinn að gera tilvísun brátt því barnið var kominn á skurðaborðið á Hringbraut og móðirin myndi ekki fá niðurgreidda skurðaðgerðina ef heilsugæslulæknirinn í Hafnarfirði gerði ekki tilvísun.“
Krafan kemur mjög oft frá til dæmis skólum eða vinnustöðum viðkomandi sjúklings. Nefnir Indriði að hann hafi stundum þurft að gera tvö eða þrjú mismunandi skólavottorð fyrir mismunandi prófin í sömu veikindunum hjá sjúklingi. Einnig að hann hafi þurft að gefa út eins eða tveggja daga veikindavottorð fyrir kvefi því vinnuveitandi krafðist þess.
Kröfurnar koma einnig frá opinberum stofnunum, svo sem Tryggingastofnun.
„Endurhæfingaráætlun til TR á 2 mán fresti, þótt ég biðji um amk 6-10 mán. TR finnst það stundum ekki nóg þótt að áætlunin breytist ekkert á tveggja mánaða fresti yfir næsta árið. Skjólstæðingurinn kemur til að segja hæ og bæ og fær vottorð, 10-20 mínútur farnar í vaskinn,“ segir Indriði. „Ég endurnýja sömu sjúkraþjálfarabeiðnina sem sjúklingur hafði fengið í 10 ár í röð fyrir sama bakverkjavandanum. Ctrl-C (copy) og Ctrl-V (paste) eru vinir mínir.“
Þá fær hann einnig beiðnir frá lögfræðingum og tryggingarfélögum sem sendi ítrekanir þegar þeirra erindi eru ekki metin eins bráð og sjúklingarnir sem eru með hita, brjóstverki og sjálfsvígshugsanir.
Indriði nefnir einnig að sum vottorð séu einfaldlega léleg eða skrýtin.
„Ökuleyfisvottorðin eru léleg. Þau votta sjón, heyrn, útlimi og útlimaburð, flogaveiki og aðsvif. Reglugerðin er miklu ítarlegri en vottorðið rúmar það ekki. Svo ég votta það sem stendur í vottorðinu,“ segir hann. „Byssuleyfisvottorð eru sérstök. Það eru engir verkferlar, reglugerðir eða gæðastaðlar hvað skal gera í veitingu byssuleyfisvottorðs. Samviskunnar vegna fletti ég allri sjúkraskrá viðkomandi upp, skoða lyfjagagnagrunn 7 ár aftur í tímann, skoða sjón og mæli blóðþrýsting, en ég gæti líka bara sleppt því og klárað þetta á 2 mínútum.“
Indriði hefur einnig fyllt út kafaravottorð, þjálfaravottorð, skólaferðalagsvottorð, skiptinámsvottorð. „Sum viðeigandi, önnur algjörlega tilgangslaus.“
Öðru hefur hann einfaldlega neitað. Svo sem hnefaleikavottorði. „Á að votta það að þú megir kýla þig/aðra í klessu? Uh, þú þarft ekkert vottorð uppá það,“ segir hann.
Þrátt fyrir að margt af þessu virðist skringilegt og tilgangslaust þá nefnir Indriði einnig að sum vottorð eigi fullkomlega rétt á sér. Til dæmis til þess að staðfesta meðgöngu, langtíma veikindi, fyrsta örorkuvottorð, vottorð til að fá hjálpartæki eða vottorð til lögreglu vegna rannsóknar máls.
„Önnur skil ég ekki og lærði ekkert um í læknisfræði,“ segir hann að lokum.