„Það er eiginlega mannréttindabrot að neita sjúklingum á Íslandi um þetta því það er gert á forsendum fordóma,“ segir hann og hvetur Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, að taka þessi mál alvarlega og stíga skrefið.
Georg Heiðar starfaði við vöruþróun og markaðsstarf í íslensku lyfjafyrirtæki í rúman áratug. Hann kom nýverið fyrir velferðarnefnd Alþingis þar sem hann var spurður af þingmönnum út í lyfjahamp og hvernig þessum málum er fyrir komið á hinum Norðurlöndunum. Í nýjum þætti Hampkastsins, umræðuþætti Hampfélagsins, fer Georg yfir þekkingu sína á málaflokknum.
„Ég hef verið í samskiptum við fyrirtæki í Skandinavíu sem eru brautryðjendur í að koma kannabisolíu inn í læknakerfi Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs,“ segir Georg en þar hafa heimilislæknar heimild til að ávísa kannabisolíu til þeirra sjúklinga sem þeir telja hana þurfa. „Danirnir myndu vilja koma hingað og aðstoða íslenska lækna, þjálfa þá og koma þessu af stað. Ávinningurinn strax væri fyrst og fremst í stuttu máli að komast inn í þessa verkjaávísun í stað ópíóíða.“
Á Íslandi gengur yfir ópíóíða-faraldur og deyja árlega um fimmtíu manns af völdum slíkra lyfja. Ekki eingöngu eru lyfin gríðarlega ávanabindandi heldur fara þau einnig afskaplega illa með líkama sjúklinga sem þau taka.
„Þrátt fyrir það höfum við engan áhuga á að líta á aðra möguleika en við höfum mikinn áhuga á ópíóíðum og ávísum þeim frekar auðveldlega. Áhuginn er ekki á þessu og ég á erfitt með að skilja það en held að þetta séu fordómar. Fólk blandar saman lækningamætti kannabis við aðra neyslu og sjá fyrir sér Bob Marley að reykja. Við viljum fá þessa ópíóíða aðeins til hliðar. Vil viljum fá kannabisolíuna inn í lækningakerfið sem þýðir að læknir ávísar olíunni, sjúklingurinn fær hana, hann kemur aftur til læknisins og þeir ræða saman um það hvernig hún virkaði og þeir vinna sig áfram þaðan.“
Í Danmörku hefur mikil framþróun orðið á stuttum tíma og margar sérhæfðar kannabisolíur í farvatninu. Meðal annars ríkir spenna um olíu sem aðstoðar sjúklinga með svefn en kannabisolíur hafa gefið afar góða raun í tilraunum. „Við Íslendingar erum heimsmeistarar í mörgum flokkum þegar kemur að lyfjanotkun og eitt metið er í svefnlyfjum. Það eru tvö svefnlyf sem ríkja á markaðnum, þeim er ávísað frjálslega og þau eru mjög ávanabindandi. Þau eru einnig mjög stíflandi og ekki holl fyrir líkamann. Kannabisolían er lausn á þessu,“ segir Georg og bætir við að jafnframt hafi kannabisolía gefið góða raun þegar kemur að flogaveiki, gigt og taugasjúkdómum.
Georg segir að lyfjafyrirtækin séu spennt að bjóða upp á þennan möguleika hér á landi en hann sé því miður ekki í boði vegna þess að stjórnvöld halda dyrunum lokuðum. Lyfjafyrirtæki sjá um þennan hluta markaðarins í Danmörku og eru afurðir frá þeim samþykktar af dönsku lyfjastofnuninni. „Það eru ákveðnir staðlar sem þarf að uppfylla. Þegar þú færð 20% olíu þá er hún 20%, ekki 15% einn daginn og 75% þann næsta eins og gerist þegar þetta flæðir um frá hvaða framleiðanda sem er.“
Þá sé ekkert því til fyrirstöðu að rækta lyfjahamp hér á landi og þróa íslenskar tegundir af kannabisolíu í lækningaskyni. „Ef þetta verður tímabundið verkefni, ég legg til að þetta yrði verkefni til tveggja ára, þá er þetta mælanlegt og í lok tímabilsins hægt að staldra við og skoða árangurinn. En það þarf að opna dyrnar. Treystum við ekki íslenskum læknum fyrir því að ávísa þessum lyfjum, eins og öðrum, til þeirra sem þeir telja að þetta geti hjálpað?“ spyr Georg og beinir orðum sínum til heilbrigðisráðherra.
„Það eina sem þarf er að Willum Þór taki þetta alvarlega, opni fyrir kannabisolíu í læknakerfinu og stígi skrefið. Þetta er eitt pennastrik hjá ráðherra og ekki mál af þeirri stærðargráðu sem þarf að fara í gegnum Alþingi. Ef við horfum á Danina þá eru þeir brautryðjendur í þessum málum og við þurfum bara að elta þá. Það er bara þannig.“
Á að á heimasíðu hampfelagid.is er að finna ógrynni af upplýsingum hvað varðar hamp og kannabis ásamt að hægt er að skrá sig í félagið gegn vægu félagsgjaldi.
Þáttinn má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan ásamst að Hampkastið finnur þú á öllum helstu streymisveitum. Gunnar Dan Wiium, stjórnarmaður í Hampfélaginu, tók viðtalið við Georg Heiðar, tækni maður var Mickael Omar Lakhlifi og Andri Karel Ásgeirsson sá um fréttaskrif.