Jesse átti að greiða fyrrum eiginkonu sinni mánaðarlegt meðlag en hafði látið hjá líða að gera það og hafði safnað upp skuld upp á rúmlega 100.000 dollara en það svarar til um 14 milljóna íslenskra króna.
The Guardian segir að hann hafi því gripið til þess ráðs að falsa eigið dánarvottorð til að komast hjá því að greiða þetta.
En þetta kom heldur betur í bakið á honum og hann sér nú fram á sjö ára fangelsi og himinháar sektargreiðslur.
Hann byrjaði á að verða sér úti um aðgang að rafrænni undirskrift læknis síns og notaði hana til að skrifa undir eigið dánarvottorð. Þetta gerði að verkum að hann var skráður látinn í fjölda opinberra gagnagrunna.
En þar með lauk svikum hans ekki. Hann braust inn í tölvukerfi einkafyrirtækja og opinberra stofnana og reyndi að selja aðganga að þessum tölvukerfum á Internetinu.
En um síðir komst upp um svik hans og hefur hann játað svik og þjófnað á persónuupplýsingum.
Hann á 500.000 dollara sekt yfir höfði sér auk þess sem hann skuldar fyrrum eiginkonu sinni 116.000 dollara og hann þarf að greiða 200.000 dollara til þeirra stofnana og fyrirtækja sem hann braust inn í tölvukerfi hjá. Þess utan þarf hann hugsanlega að eyða næstu sjö árum bak við lás og slá.