Sparkspekingurinn Kristján Óli Sigurðsson telur að Emil Atlason framherji Stjörnunnar verði að fara að einbeita sér að fótboltanum frekar en þeim launapakka sem hann er með í Garðabæ.
Markamaskínan Emil skrifaði undir nýjan samning við Stjörnuna í vetur eftir að Íslandsmeistarar Víkings sýndu honum áhuga.
Heldur Kristján því fram að Emil sé með vel yfir milljón á mánuði í Garðabæ.
Kristján ræddi um málið í Þungavigtinni og byrjaði á að ræða Hilmar Árna Halldórsson en Stjarnan hefur tapað fyrstu tveimur leikjum Bestu deildarinnar. „Hilmar Árni hefur enga afsökun, afsökunarheftið hans er tómt. Hann er búinn að vera heill heilsu í allan vetur,“ sagði Kristján Óli í Þungavigtinni.
Emil hefur ekki náð að skora í fyrstu tveimur leikjunum með nýja samninginn í pokanum.
„Emil Atlason er með Gumma Mag syndromeið, troðfullt rassgat af peningum en enginn frammistaða. Nýr samningur, enginn mörk. Það er bara beðið eftir því að síminn pingi að Stjarnan sé búinn að millifæra 1,2 milljónir. Ég auglýsi eftir því að Emil setji símann á silent og einbeiti sér að boltanum.“
Stjarnan tekur á móti Val í Bestu deild karla á föstudag á heimavelli sínum.