Á samfélagsmiðlum hafa birst myndir af bílum, fokdýrum lúxuskerrum meðal annars, á kafi í vatni og eru dæmi um ökumenn sem þurftu að komast í skjól syndandi.
Ástandið er einmitt einna verst í nágrenni flugvallarins þar sem allt er á kafi í vatni og hefur mörgum flugferðum verið aflýst. Þá flæddi vatn inn í mörg hús og þurftu íbúar að leita skjóls annars staðar.
„Við hvetjum þig til að koma EKKI á flugvöllinn nema það sé algjörlega nauðsynlegt. Flugferðum hefur verið seinkað eða aflýst. Athugaðu stöðuna á flugi hjá þínu flugfélagi. Við vinnum hörðum höndum að því að koma starfseminni í samt horf í mjög krefjandi aðstæðum,“ sagði í tilkynningu á heimasíðu alþjóðaflugvallarins í Dúbaí.
Það byrjaði að rigna síðdegis á mánudag og náði úrkoman hámarki í gærmorgun. Á aðeins 24 klukkustundum féllu rúmir 140 millimetrar en ársúrkoma í Dúbaí er að meðaltali 94 millimetrar.
Á vef Daily Mail kemur fram að í morgunsárið hafi vinna hafist við hreinsun og að dæla vatni af götum. Engar fréttir hafa borist af manntjóni.