Paris Saint-Germain og Dortmund mætast í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Þetta varð ljóst eftir að liðin slógu út andstæðinga sína, Barcelona og Atletico Madrid, í kvöld.
PSG hafði tapað fyrri leiknum gegn Barcelona heima 2-3 og Dortmund tapaði 2-1 á útivelli gegn Atletico.
Á Ólympíuleikvanginum í Barcelona byrjuðu heimamenn betur gegn PSG og kom Raphinha þeim yfir eftir frábæran undirbýning Lamine Yamal.
Á 29. mínútu fékk Ronald Araujo, varnarmaður Börsunga, hins vegar rautt spjald og við það breyttist leikurinn. Ousmane Dembele jafnaði tíu mínútum síðar og staðan í hálfleik var 1-1.
Snemma í seinni hálfleik kom Vitinha PSG yfir og staðan jöfn samanlagt. Xavi, stjóri Barcelona, fékk rautt spjald og var sendur upp í stúku á 57. mínútu og skömmu síðar fékk PSG víti eftir afar klaufalegt brot Joao Cancelo innan teigs. Kylian Mbappe fór á punktinn og skoraði.
Barcelona sótti þá í sig veðrið og leitaði að marki til að jafna einvígið. Þá skoraði Mbappe hins vegar sitt annað mark hinum megin á 89. mínútu. Lokatölur 1-4 og samanlagt 6-4 fyrir PSG.
Það var markaveisla þegar Dortmund tók á móti Atletico Madrid. Julian Brandt kom heimamönnum yfir á 34. mínútu og fimm mínútum síðar kom Ian Maatsen þeim í 2-0. Þannig var staðan í hálfleik.
Atletico minnkaði muninn strax í upphafi seinni hálfleiks með sjálfsmarki Mats Hummels og staðan samanlagt orðin jöfn. Angel Correa skoraði svo annað mark Atletico á 64. mínútu.
Dortmund tók hins vegar við sér á ný og á 71. mínútu skoraði Niclas Fullkrug. Marcel Sabitzer skoraði svo sigurmark einvígisins fyrir Dortmund skömmu síðar. Lokatölur í kvöld 4-2 og samanlagt 5-4.