Mikel Arteta, stjóri Arsenal, er mikill aðdáandi Ollie Watkins hjá Aston Villa en það gæti þó verið flókið að klófesta kappann í sumar. Daily Mail fjallar um málið.
Watkins er að eiga frábært tímabil með Villa. Hann er kominn með 19 mörk og 10 stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni og skoraði til að mynda í 0-2 sigri á Arsenal um helgina, tapi sem gæti haft mikið að segja í titilbaráttu Arsenal við Manchester City og Liverpool.
Arteta hefði ekkert á móti því að fá mann eins og Watkins í sitt lið en samkvæmt Daily Mail gæti það reynst erfitt þar sem sóknarmaðurinn kostar 70 milljónir punda þrátt fyrir að hann verði 29 ára gamall á árinu. Ekki er víst að æðstu menn Arsenal samþykki það.
Það þykir þó nokkuð líklegt að Skytturnar reyni að fá til sín framherja í sumar en Ivan Toney hefur til að mynda verið orðaður við félagið einnig.