Morgunblaðið segir frá því í dag að Bjarkey sé undir miklum þrýstingi frá samstarfsflokkum VG í ríkisstjórninni. Er bent á það að umsókn um hvalveiðileyfi frá Hval hf. hafi velkst um í matvælaráðuneytinu í síðan í lok janúar.
Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir við Morgunblaðið að hann gangi út frá því að ráðuneytið, eins og önnur stjórnvöld, fari að lögum.
„Það er alveg ljóst að hvalveiðar eru lögum samkvæmt heimilar og ef umsókn berst um leyfi til hvalveiða verður ráðherrann að afgreiða slíkt leyfi lögum samkvæmt,“ segir hann meðal annars og kveðst vona að af hvalveiðum verði í sumar.
„Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum,“ bætir hann við.
Undir þetta tekur Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins, en hann segir við Morgunblaðið að afstaða þingsins sé ljós – hvalveiðar séu leyfðar.
„Ég hef væntingar til þess að nýr matvælaráðherra muni höggva á þennan hnút sem allra fyrst. Þetta hvalveiðimál hefur þvælst nógu lengi fyrir og verið erfitt í umræðunni. Ég treysti því að nýr ráðherra leysi þetta.“