Fram tekur á móti Íslands- og bikarmeisturum Víkings í lokaleik umferðarinnar í Bestu deild karla í kvöld. Rúnar Kristinsson, þjálfari liðsins, hefur fulla trú á sínum mönnum.
„Hann leggst ofboðslega vel í mig. Við verðum að hafa trú á því að við getum strítt þeim og gert þeim erfitt fyrir,“ sagði hann um leikinn við 433.is í dag.
„Við vitum engu að síður að Víkingur er búinn að vera með besta lið á Íslandi undanfarið. Þetta verður því gífurlega erfitt verkefni fyrir okkur. En við þurfum að hafa trú á því sem við erum að gera og horfa svolítið bara á okkur sjálfa en ekki of mikið á þá. Svo sjáum við bara hvernig þetta þróast.
Við höfum engu að tapa,“ sagði Rúnar enn fremur, en leikurinn hefst klukkan 19:15 í kvöld.
Ítarlegra viðtal við Rúnar er í spilaranum. Rætt var við hann í tilefni að drættinum í Mjólkurbikar karla.