fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Málinu sem klauf kirkju aðventista vísað frá – Lambafell og Litla-Sandfell flutt til sementsgerðar í Þýskalandi

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 15. apríl 2024 16:00

Litla Sandfell í Ölfusi er annað fjallanna sem aðventistar eiga. Mynd/Skipulagsstofnun

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um frávísun í máli sem klauf söfnuð Sjöunda dags aðventista. Stjórnin seldi þýskum iðnrisa námuréttindi úr tveim íslenskum fjöllum í óþökk stórs hluta safnaðarins.

Söfnuðurinn klofinn

DV fjallaði um málið í nóvember síðastliðnum, þegar málið var að koma fyrir dómstóla.

21 aðventistar stefndu kirkjunni og námuvinnslufyrirtækinu Eden Mining til réttargæslu. Var þess krafist að samningi um námuréttindi í fjöllunum Lambafelli og Litla-Sandfelli í Ölfusi sem undirritaður var í janúar árið 2022 yrði rift. En fjöllin standa í landi Breiðabólstaðar sem er í eigu kirkjunnar.

Stefnendurnir vildu ekki að kirkjan væri að taka þátt í braski og selja íslensk fjöll úr landi. En félagið Eden Mining, sem er í eigu tveggja safnaðarmeðlima, er í samvinnu við þýska iðnrisann Heidelberg Cement Pozzolanic Materials og stendur til að flytja efnið úr fjöllunum út til sementsgerðar.

Sjá einnig:

Aðventistar klofnir í herðar niður vegna námumáls – Allt í háaloft á aðalfundi

Málið hefur valdið gríðarlegum illdeilum innan hins fámenna safnaðar og má segja að hann sé klofinn í herðar niður. En allt sprakk í háaloft þegar tekist var um námumálin á aðalfundi í september árið 2022.

Síðan þá hefur stjórnin og fólk í kringum það einangrað sig frá öðrum í söfnuðinum og heldur sínar eigin trúarsamkomur í húsnæði í Suðurhlíð.

Lögspurningar óleyfilegar

Héraðsdómur úrskurðaði í málinu þann 20. febrúar síðastliðinn og Landsréttur staðfesti úrskurðinn þann 9. apríl. Er málinu vísað frá og stefnendunum gert að greiða kirkjunni 450 þúsund krónur í málskostnað og Eden Mining 250 þúsund krónur.

Töldu dómstólar vera ágalla á kröfunni. Það er að kröfugerðin hafi falið í sér lögspurningu, sem sé andstætt lögum um meðferð einkamála. Spurningin hafi verið sú hvort stjórninni hafi verið heimilt að samþykkja og undirrita samninginn. En í lögunum segi að dómstólar megi ekki vera spurðir álits um lögfræðileg efni eða hvort tiltekið atvik hafi gerst nema að því leyti sem nauðsynlegt sé til að fá úrlausn um ákveðna kröfu.

Að minnsta kosti 15 milljónir á ári

Í málsmeðferðinni kom fram að tilgangur samningsins hafi verið að mati stjórnar að tryggja kirkjunni stöðugar tekjur af jarðefnanámunum. Samningurinn byggi á eldri samningum um efnistöku en með hækkun verðs og greiðslu fyrir tilgreint lágmarksmagn af efni á hverju ári.

Þetta hafi falið í sér aukna áhættu fyrir viðsemjendur kirkjunnar en stöðugar og auknar tekjur fyrir kirkjuna sjálfa. Það er að minnsta kosti 15 milljónir króna á hverju ári, jafn vel þó engin möl væri tekin úr fjöllunum. Um hafi verið að ræða afnotasamning en ekki sölu og því bæri stjórn ekki að bera hann undir aðalfund.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Kringlan komin á fulla ferð á ný

Kringlan komin á fulla ferð á ný
Fréttir
Í gær

Eldgos hafið á Reykjanesi

Eldgos hafið á Reykjanesi
Fréttir
Í gær

Kona ákærð fyrir ofbeldi gegn barni á leikvelli í Reykjavík – „Sýndi ákærða drengnum yfirgang og ruddalegt athæfi“

Kona ákærð fyrir ofbeldi gegn barni á leikvelli í Reykjavík – „Sýndi ákærða drengnum yfirgang og ruddalegt athæfi“