Mennirnir gripu til þess ráðs að skrifa „Help“ með pálmablöðum á strönd eyjunnar og það var einmitt þetta sem varð til þess að strandgæslan varð þess áskynja að einhver væri á eyjunni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá strandgæslunni.
Þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem þessi aðferð hefur verið notuð til að vekja athygli á sér en engu að síður vel gert hjá mönnunum að muna eftir þessu og nota þessa aðferð.
Það var laugardaginn sjötta apríl sem frænka eins mannanna tilkynnti um hvarf þeirra. Þeir höfðu þá verið rúma viku á sjó en höfðu ekki skilað sér heim.
Strandgæslan hóf strax leit að mönnunum og notaði meðal annars flugvélar við hana.
Mennirnir eru allir reyndir sjómenn á fertugsaldri. Þeir sigldu frá eyjunni Polowat Atoll, sem er hluti af Sambandsríkinu Míkrónesíu. Ferðin gekk vel í upphafi en síðan skemmdist bátur þeirra og vélin bilaði. Í kjölfarið enduðu þeir á eyðieyju.
Eftir að áhöfn leitarflugvélar sá „Help“ merkið á eyjunni var strandgæsluskipið USCGC Oliver Henry sent þangað og kom það þangað þriðjudaginn níunda apríl og bjargaði mönnunum.