Sérfræðingur í alþjóðamálum, Dr. Lina Khatib, segir í samtali við BBC að Íranir hafi viljað senda sterk skilaboð með drónaárásum sínum á Ísrael í gær, til að halda andlitinu gagnvart alþjóðasamfélaginu, en það sé ekki vilji þeirra að átökin stigmagnist.
Dr. Khatib segir að aðgerðin hafi í raun verið takmörkuð.
Íranir skutu í gærkvöld hundruðum dróna og flugskeyta í átt að Ísrael. Ísraelski herinn grandaði meirihluta þeirra utan lofthelgi Ísraels. Árásirnar eru ekki taldar hafa valdið miklu tjóni í Ísrael.
Árásirnar eru hefndaraðgerð vegna sprengingar Ísraelshers á sendiráði Írans í Sýrlandi í byrjun þessa mánaðar. Sjö íranskir hermenn féllu í árásinni, þar af tveir hershöfðingjar (sjá RÚV).
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur fordæmt árásina í færslu á X (áður Twitter). Í færslunni segir að Ísland fordæmi árás Írans á Ísrael. Mikilvægt sé að sýna stillingu og koma í veg fyrir stigmögnun átaka á svæðinu, ástandið sé alvarlegt nú þegar.
Iceland condemns Iran’s attack on Israel. It is as important as ever to show restraint to prevent further escalation of an already extremely serious situation in the region.
— Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir🇮🇸 (@thordiskolbrun) April 14, 2024