Diogo Dalot, leikmaður Manchester United, hefur gagnrýnt varnarleik liðsins eftir 2-2 jafntefli við Bournemouth í gær.
Þessi úrslit gera ekki mikið fyrir United sem á enn afskaplega takmarkaða von á að ná Meistaradeildarsæti.
Varnarleikur United í jafnteflinu var lélegur og var Dalot sjálfur harðlega gagnrýndur fyrir sína frammistöðu.
Portúgalinn viðurkennir að spilamennskan hafi verið fyrir neðan væntingar en tjáði sig ekki um eigið framlag.
,,Þetta hefur verið eitt af okkar áhyggjuefnum, kannski þurfum við að vera þéttari sem lið, við megum ekki hafa of stórt bil á milli varnarmanna og miðjumanna,“ sagði Dalot.
,,Stundum er bilið of mikið og það hefur áhrif á skyndisóknir. Þetta er eitthvað sem við þurfum að bæta því við erum ekki að spila nógu vel fyrir lið í þessum gæðaflokki.“