Tveimur leikjum er nýlokið í Sambandsdeildinni. Um var að ræða fyrri leiki í 8-liða úrslitum.
Í Birmingham tók Aston Villa á móti Lille, en Hákon Arnar Haraldsson var á sínum stað í byrjunarliði franska liðsins.
Villa byrjaði vel og hinn sjóðheiti Ollie Watkins kom þeim yfir á 13. mínútu. Það reyndist eina mark fyrri hálfleiks.
John McGinn tvöfaldaði forskot Villa á 56. mínútu og útlitið orðið gott. Bafode Diakaite minnkaði hins vegar muninn fyri Lille á 83. mínútu. Lokatölur 2-1 fyrir seinni leikinn í Frakklandi og allt galopið.
Í hinum leiknum vann Club Brugge 1-0 sigur á PAOK. Norðmaðurinn Hugo Vetlesen skoraði eina mark leiksins á 6. mínútu.
Seinni leikirnir fara fram eftir slétta viku.