Liverpool tapaði afar óvænt illa gegn Atalanta á heimavelli í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.
Markalaust var þar til á 38. mínútu í kvöld en þá kom Gianluca Scamacca, fyrrum leikmaður West Ham, ítalska liðinu yfir. Staðan í hálfleik 0-1.
Liverpool tókst ekki að rétta úr kútnum í seinni hálfleik. Þvert á móti skoraði Scamacca á ný á 60. mínútu.
Mohamed Salah hélt svo að hann hefði minnkað muninn fyrir Liverpool en mark hans var dæmt af vegna rangstöðu. Þess í stað skoraði Mario Pasalic þriðja mark Atalanta á 83. mínútu. Lokatölur 0-3 og Liverpool á verk að vinna í seinni leiknum.
Þrír aðrir leikir fóru fram á sama stigi keppninnar í kvöld. Topplið Þýskalands, Bayer Leverkusen, vann til að mynda 2-0 sigur á West Ham. Fyrsta markið kom ekki fyrr en á 83. mínútu þegar Jonas Hofman skoraði. Í uppbótartíma kom Victor Boniface Leverkusen svo í 2-0 og þar við sat.
Roma vann þá ansi sterkan útisigur á AC Milan, 0-1, með marki Gianluca Mancini á 17. mínútu.
Loks vann Benfica 2-1 sigur á Marseille. Rafa Silva og Angel Di Maria skoruðu mark fyrrnefnda liðsins og Pierre-Emerick Aubameyang mark þess síðarnefnda. Allt opið fyrir seinni leikinn.