Arsenal ætlar að setja af stað rannsókn til að komast að því hvernig stuðningsmenn Bayern Munchen komust inn á Emirates-leikvanginn í leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á þriðjudag.
Arsenal og Bayern gerðu 2-2 jafntefli í fyrri leik liðanna á þriðjudag, en stuðningsmenn síðarnefnda liðsins máttu ekki mæta á völlinn. Ástæða þess að þeir voru í banni er sú að stuðningsmenn köstuðu flugeldum inn á völlinn í leik gegn Lazio í síðustu umferð.
Þó voru stuðningsmenn Bayern mættir á leikinn í London á þriðjudag og þetta rannsakar Arsenal nú.
Líklegt er að einhverjir stuðningsmenn Arsenal hafi selt stuðningsmönnum Bayern miða sína en enska félagið mun setja þá sem gerðust sekir um það í bann frá leikvangi sínum.