fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Eyjan

Guðbergur býður sig fram til forseta – Mun minnka við sig ef hann flytur til Bessastaða

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 11. apríl 2024 19:30

Guðbergur vill á Bessastaði en Steinþór segir að hann skuldi sér rúmlega 40 ára gamlan reikning

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðbergur Guðbergsson, fasteignasali og fyrrum áhættuleikari, býður sig fram til embættis forseta Íslands. Hann telur embættið verulega vannýtt og myndi meðal annars nota það til þess að koma í veg fyrir einkavæðingu raforkuinnviða.

„Ég ætla að fá að tala mínu máli. Það vekur þá alla vega fólk til umhugsunar. En auðvitað vill ég verða forseti og ég treysti mér í það,“ segir Guðbergur sem er hæfilega bjartsýnn á árangur í kosningunum en brennur augljóslega fyrir sín mál.

Guðbergur er fæddur árið 1960, úr Reykjavík en ættaður frá Bolungarvík. Hann starfaði einnig um tíma á Akureyri og hefur góð tengsl fyrir norðan.

Áhættuleikari í íslenskum bíómyndum

Hann er menntaður vélstjóri og starfaði sem slíkur í 19 ár, fyrst á fiskiskipum en svo á fraktskipum. Hann hefur einnig verið í ýmsum rekstri, svo sem innflutningi og útflutningi og skipaútgerð en lengst af rekið fasteignasöluna Bæ. Hann seldi þann rekstur fyrir þremur árum síðan en starfar enn þá sem fasteignasali.

Einnig lærði Guðbergur áhættuleik í Bretlandi og lék áhættuatriði í mörgum íslenskum bíómyndum, svo sem Löggulífi, Skyttunum og Perlum og svínum. Meira að segja lék hann í einni bíómynd í Danmörku áður en hann lagði þeim ferli.

„Ég hef aldrei verið í áfengi, fíkniefnum eða neinu veseni. Ég drekk ekki einu sinni kaffi. En adrenalín er mitt fíkniefni,“ segir Guðbergur og játar því að vera spennufíkill. Hann hefur keyrt rallýbíla, orrustuflugvélar og þyrlur. Sjálfur á hann tvær þyrlur og sú þriðja er á leiðinni.

Klessti þyrlu á Esjunni

Guðbergur segist oft hafa lent í háska og hasar. Í áhættuleiknum og annars staðar. Tvisvar hafi hann lent í mikilli hættu á sjó í vitlausu veðri og litlu munað að illa færi.

Fyrir sex eða sjö árum síðan klessti hann eina þyrluna í Esjunni, þegar hún fór á hliðina í snjó í lendingu.

„Fulltrúi frá Rannsóknarnefnd flugslysa kom til mín og hélt að ég væri alveg niðurbeygður. En ég sagði honum að ég væri feginn að vera búinn að þessu. Ég hef aldrei prufað neitt tæki án þess að klessa það. Nú er ég búinn að því og svo gerist ekkert meir,“ segir Guðbergur brattur.

Reisti stærsta einbýlishús landsins

Guðbergur er giftur Kristínu Birnu Garðarsdóttur og eiga þau tvö börn, Önnu Björk og Viktor. Barnabörnin eru orðin þrjú og það fjórða er á leiðinni.

Árið 2008 komst hann í fréttirnar þegar hann var að byggja sér stærsta einbýlishús landsins. Húsið, sem stendur í Mosfellsbæ, spannar tæpa 1.500 fermetra. Verði Guðbergur kjörinn forseti Íslands myndi hann og fjölskylda hans minnka umtalsvert við sig því að íbúðarrými forseta á Bessastöðum eru „aðeins“ rúmir 440 fermetrar.

Embættið vannýtt

En hvað ætlar Guðbergur að gera á Bessastöðum?

„Ég er búinn að lesa mér til um lögin búinn að lesa stjórnarskránna. Forsetinn getur gert miklu meira en hann gerir. Ég vill koma því á framfæri,“ segir Guðbergur. Telur hann forsetaembættið vera verulega vannýtt til góðra verka.

Meðal annars vill hann koma í veg fyrir sölu raforkuinnviða, svo sem hluta úr Landsvirkjun sem hefur verið í umræðunni.

„Forseti er æðsti maður lýðveldisins. Forseti er eins og forstjóri í fyrirtæki. Í stjórnarskránni stendur að hann geti falið ráðherrunum verkefni. Ég mun reyna að gera það,“ segir hann.

Guðbergur vill að stjórnvöld séu að þjónusta fólkið í landinu. Til dæmis gagnvart Sjúkratryggingum, Tollinum og Skattinum. Stjórnvöld eigi að veita upplýsingar en ekki gera fólki það að þurfa sjálft að leita réttar síns í frumskógi kerfisins. Horfir hann til Noregs í því samhengi, þar sem er til dæmis umboðsmaður sjúklinga sem útskýrir réttindi fólks fyrir því af fyrra bragði.

Stöðva þurfi Orkupakka 4

Stórt verkefni sé að spyrna við Orkupakka númer 4 sem sé á leiðinni.

„Orkupakki 4 gerir það að verkum að við stjórnum ekki lengur raforkuverðinu okkar,“ segir Guðbergur. Segir hann að til standi að leggja sæstrengi til Evrópu og eigendurnir krefjist 70 prósent nýtingar. „Um leið og við erum farin að skaffa orku til Evrópu þá erum við að hækka raforkuverðið okkar. Við eigum þessa orku og við eigum ekki að selja hana einhverjum fjárfestum sem munu koma til með að græða á henni. Þá verður allt miklu dýrara fyrir okkur sem neytendur,“ segir hann að lokum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Umpólun Snorra?

Nýlegt

Umpólun Snorra?
Eyjan
Í gær

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar
Eyjan
Í gær

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?