Gunnlaugur Fannar Guðmundsson hefur flakkað mikið í vetur en í október rifti hann samningi sínum við Keflavík, hann samdi svo við Fylki.
Eftir að hafa æft með Fylki og spilað í vetur kom það verulega á óvart að félagið rifti samningi hans.
Gefið var út að ekki væri pláss fyrir Gunnlaug Fannar í hóp hjá Fylki og í vikunni samdi hann aftur við Keflavík en samkvæmt Þungavigtinni var þarna verið að fara frjálslega með sannleikann.
„Olgeir Sigurgeirsson (Aðstoðarþjálfari Fylkis) sagði í viðtali við .net að hann væri ekki að fara að spila með liðinu og ekki að komast í hóp. Fylkir rifti við hann, hann var lykilmaður hjá Keflavík og hvað gekk á til að hann yrði ekki í hóp hjá Fylki? Finnst þér þetta ekki skrýtið?,“ sagði Ríkharð Óskar Guðnason stjórnandi Þungavigtarinnar.
Kristján Óli Sigurðsson segir margt benda til þess að eitthvað hafi gerst í æfingaferð liðsins. „Það gerðist eitthvað þarna, menn eru ekki að segja sannleikann. Það gerðist eitthvað í æfingaferðinni.“
Mikael Nikulásson segir að Olgeir hafi betur sleppt því að ræða málið því augljóst hafi verið að hann væri að ljúga.
„Olgeir er toppdrengur en hann hefur ekki verið mikið í viðtölum í gegnum tíðina, ég sá þetta og sá að miðað við svörin þá hefði fyrirsögnin geta verið „Ég er að ljúga“. Hann var einn af þremur skástu leikmönnum Keflavíkur í fyrra, hann er kannski ekki fyrsti maður á blað hjá Fylki og hann var alltaf að fara að spila eitthvað. Svörin voru þannig að hann er ekki góður lygari,“ sagði Mikael.