Bjarni Benediktsson tók við lyklunum að forsætisráðuneytinu í morgun, en ný ríkisstjórn undir forystu hans tók við völdum á fundi ríkisráðs á Bessastöðum í gærkvöldi. Nú á degi lyklaskiptanna fagnar álit umboðsmanns Alþingis um Íslandsbankasöluna hálfs árs afmæli, en álitið var birt þann 10. október 2023.
Umboðsmaður sagði í samantekt álits síns:
„Í ljósi þess að einkahlutafélag föður fjármála- og efnahagsráðherra var á meðal kaupenda að 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka sem seldur var í mars 2022 brast hann hæfi þegar hann samþykkti tillögu Bankasýslunnar um söluna.“
Eftir að álitið var birt sagði Bjarni samdægurs af sér sem fjármálaráðherra og hafði í kjölfarið stólaskipti við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, þáverandi og núverandi utanríkisráðherra. Bjarni afhenti Þórdísi aftur lyklana að utanríkisráðuneytinu í dag en tók svo sjálfur við lyklum úr hendi Katrínar Jakobsdóttur að forsætisráðuneyti.
Að mati umboðsmanns gat það ekki haggað niðurstöðu um vanhæfi þó ekkert hafi fram komið sem gæfi tilefni til að efast um staðhæfingu Bjarna um að hann hafi ekki vitað að faðir hans, Benedikt Sveinsson, væri meðal bjóðenda í Íslandsbankasölunni. Umboðsmaður sagði stjórnsýslu Bjarna við undirbúning Íslandsbankasölunnar ekki í samræmi við stjórnunar- og eftirlitsskyldu hans gagnvart Bankasýslu ríkisins.
Drög að frumvarpi um frekari sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka birtust í samráðsgátt stjórnvalda í febrúar á þessu ári. Þar er lagt til að ráðherra verði heimilað, að fenginni heimild Alþingis, að halda áfram að selja hlut ríkisins í bankanum, en eignarhluti er nú um 42,5 prósent. Við þessa sölu á að beita markaðssettu útboði, einu eða fleiru, og á sala til einstaklinga að hafa forgang. Í samræmi við ábendingar Ríkisendurskoðunar fær Íslandsbanki ekki að koma með beinum hætti að sölunni og eins er lagt til að hlutverk Bankasýslu ríkisins falli brott.
Bjarni Benediktsson er nú forsætisráðherra í annað sinn á sínum stjórnmálaferli. Hann tók síðast við ráðuneytinu á miklum átakatímum í íslenskum stjórnmálum. Bjarni tók við fyrsta ráðherrastólnum árið 2013 þegar hann settist fyrst í fjármálaráðuneytið. Fljótlega fóru fjölskyldutengsl hans að valda honum vandræðum, eitthvað sem má kalla einkenni af hans tíð í ríkisstjórn. Árið 2014 seldi Landsbankinn, sem er nánast alfarið í ríkiseign, eignarhlut sinn í greiðslumiðluninni Borgun. Einn kaupenda var Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna. Fljótlega vakti eins athygli að félög bræðranna, Benedikts og Einars, hefðu fengið ívilnanir eða fyrirgreiðslu frá hinu opinbera eftir að Bjarni tók við embætti.
Ekki leið á löngu áður en Wintris-málið alræmda kom upp í tengslum við Panamaskjölin. Bjarna brá fyrir í skjölunum út af tengslum við aflandsfélagið Falson & Co. Bjarni gerði þó lítið úr aðkomu sinni og sagðist ekki hafa haft hugmynd um að félagið væri skráð í skattaparadís á Seychelles-eyjum. Wintris-málið varð til þess að þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sagði af sér og var þingkosningum í kjölfarið flýtt, ári á undan áætlun. Eftir kosningar tók Bjarni við forsætisráðuneytinu en gleðin reyndist skammvinn.
Aftur komu fjölskyldutengsl Bjarna honum í óþægilega stöðu. Haustið 2017 kom í ljós að faðir Bjarna, Benedikt, hafði skrifað undir meðmælabréf með beiðni Hjalta Sigurjóns Haukssonar um uppreist æru. Hjalti var árið 2004 dæmdur í fimm og hálfs ára fangelsi í Hæstarétti fyrir kynferðisbrot gegn fyrrverandi stjúpdóttur sini. Brotin hófust þegar stúlkan var á aldrinum 5-6 ára og stóðu yfir þar til hún varð 18 ára. Fréttir bárust af meðmælunum í september 2017 en þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, hafði þó greint Bjarna frá stöðunni í júlí sama ár. Flokkurinn Björt Framtíð sem var meðal flokka í meirihluta leit á þögn Bjarna um málið sem alvarlegan trúnaðarbrest og sleit stjórnarsamstarfinu samdægurs. Aftur var boðað til kosninga og Bjarni endaði aftur í fjármálaráðuneytinu þar sem hann sat þar til hann færði sig í utanríkisráðuneytið í nóvember eftir Íslandsbankahneykslið.
Innan við sólarhring eftir að Bjarni tók við forsætisráðuneytinu hafa rúmlega 16 þúsund skrifað undir undirskriftalista á Ísland.is og lýst því yfir að Bjarni sé ekki forsætisráðherra í þeirra nafni.