fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tekin við völdum – Það helsta

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 9. apríl 2024 21:49

Mynd: Skjáskot/Ruv.is/Ragnar Visage

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók formlega við stjórnartaumunum á Bessastöðum í kvöld af ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Eins og fram kom fyrr í dag er ríkisstjórnin nýja skipuð sama fólki og hin fyrri nema að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir stígur um borð í stað Katrínar sem hefur boðið sig fram í forsetakosningunum sem fram fara í júní.

Bjarni Benediktsson er  forsætisráðherra en Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð er orðin utanríkisráðherra í stað Bjarna og Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála- og efnahagsráðherra í stað Þórdísar. Svandís Svavarsdóttir er orðin innviðaráðherra í stað Sigurðar Inga og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra í stað Svandísar.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hélt stuttan blaðamannafund á milli funda sinna í ríkisráði með ríkisstjórn Katrínar og ríkisstjórn Bjarna.

Þar sagði Guðni m.a. að það millibilsástand sem skapaðist milli þess tíma sem leið frá því að Katrín baðst lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína á sunnudag og þar til stjórnarflokkarnir komu sér saman um nýja ríkisstjórn hefði reynt á stjórnskipan landsins en hún hafi haldið. Hann teldi þó að ræða þyrfti valdsvið starfsstjórnar, eins og ríkisstjórn forsætisráðherra sem beðist hefur lausnar er, og jafnvel setja ákvæði um slíkt í stjórnarskránna en hafa þyrfti þó einhvern sveigjanleika í þeim efnum.

Munur á að safna meðmælum og vera í framboði

Guðni var meðal annars spurður um skoðanir sínar á því hvort breyta þyrfti ákvæðum um forsetaembættið í stjórnarskránni, reglum um fjölda meðmælenda fyrir forsetaframboð og hvort að hafa ætti tvöfalda umferð í forsetakosningum.

Hann vildi aðeins tjá sig á almennum nótum um þessi viðfangsefni en sagði meðal annars að legið hefði fyrir við lýðveldisstofnun að stefnt hefði verið að því að breyta síðar ákvæðum um forsetaembættið í stjórnarskránni en það hefði enn ekki verið gert. Vel mætti vera að fjölga hefði átt meðmælendum í takt við fjölgun íbúa landsins frá 1944 en sagði dæmi um að fjölmennari ríki en Ísland sem hefðu þjóðkjörinn forseta gerðu minni kröfur um fjölda meðmælenda svo hægt væri að bjóða sig fram til forseta og nefndi þar Kýpur. Hann teldi þó mun á því að vera aðeins skráður í meðmælasöfnun á island.is og því að vera raunverulega í framboði til forseta.

Guðni sagði aðspurður að það væri fínt að hafa stöðugleika í íslenskum stjórnmálum en í lýðræðisríki yrði að vera gagnrýni á valdhafa. Hann lýsti ekki yfir neinni skoðun á því að ríkisstjórnarskipti hefðu farið fram með þeim hætti sem raun ber vitni en lagði áherslu á að á Íslandi væri þingbundin stjórn og að ljóst væri að ríkisstjórn Bjarna styddist við meirihluta á Alþingi. Því væri eðlilegt að stjórnarflokkarnir héldu samstarfi sínu áfram þrátt fyrir forsætisráðherraskiptin.

Hann vísaði að lokum spurningum um hvort heppilegt hefði verið að fresta fundum Alþingis á meðan starfsstjórn var við völd, eins og raunin varð, til Birgis Ármannssonar forseta þingsins.

Óvissuferð fyrrverandi forsætisráðherra

Katrín Jakobsdóttir, nú fyrrverandi forsætisráðherra, yfirgaf Bessastaði skömmu eftir að ríkisráðsfundinum með ríkisstjórn hennar lauk. Hún sagði við Vísi og RÚV að við tæki óvissuferð í forsetaframboði og að þótt hún hefði forystu í skoðanakönnunum tæki hún engu sem gefnu og kannanir segðu ekki mikið. Nýr kafli væri framundan í lífi hennar. Katrín tilkynnti á Facebook-síðu sinni fyrr í dag að hún myndi kl. 13 á morgun hefja söfnun meðmælenda á island.is.

Katrínu var ekið burt frá Bessastöðum og mætti hún þá hópi mótmælenda en Roði félag ungra sósíalista stóð fyrir mótmælum vegna ríkisstjórnarskiptanna og gerði einkum athugasemdir við að Bjarni Benediktsson yrði forsætisráðherra, í ljósi ýmissa mála sem tengst hafa honum á stjórnmálaferli hans. Mótmælendur fengu ekki að fara lengra en að afleggjaranum að Bessastöðum. Í frétt RÚV kom fram að einhverjir mótmælendur hefðu lagst í götuna þegar bifreið Katrínar var ekið til móts við þá en væntanlega var för forsætisráðherrans fyrrverandi á heimili sitt í vesturbæ Reykjavíkur ekki hindruð lengi.

Hvort mótmælendur hafi með þessu verið að tjá þá skoðun sína að betra væri að hafa Katrínu áfram sem forsætisráðherra en að Bjarni tæki við skal ósagt látið. Fram kemur á Vísi að þrír mótmælendanna hafi verið handteknir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt