Danny Murphy, fyrrum leikmaður Liverpool segir frá því að hann hafi orðið háður kókaíni þegar feril hans var á enda. Murphy segist hafa verið langt leiddur í neyslu en leitað sér hjálpar.
Murphy var atvinnumaður í tuttugu ár en hætti árið 2013, hann lék meðal annars með Liverpool í sjö ár en kom við hjá Tottenham og fleiri liðum.
„Þetta varð slæmt og um tíma taldi ég mig ekki geta gert neitt án þess að nota efnin,“ segir Murphy í dag en hann er að tjá sig um þetta í fyrsta skiptið.
„Þetta var kókaín, ég notaði kókaín og reykti stundum gras. Ég þurfti ekkert að drekka, ég gat átt áfengi heima hjá mér án þess að snerta það.“
Hann segir þetta hafa byrjað rólega. „Eins og flestir fíklar geta sagt þér þá ræður þú við þetta í byrjun,“ segir Murphy.
„Þú gerir þetta kannski einu sinni eða tvisvar í viku, svo ferðu að leyfa þér þriðja daginn og þá fer þetta úr böndunum. Þegar ég leitaði mér hjálpar þá talaði ég við fólk sem hafði farið í gegnum þetta.“
„Ég fór í sáfræðimeðferð og í hópa þar sem þetta var rætt.“
Hann segist hafa upplifað erfiða tíma með andlegu hliðina þegar hann var að hætta. „Sumir lenda í því að allt lífið þeirra eftir svona er erfitt fyrir andlegu hliðina. Ég tók eitt ár þar sem það var mikill sársauki og svo fór það.“