fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

Andri Már varð fyrir alvarlegri líkamsárás og frelsissviptingu – „Í dag er ég frek­ar þakk­lát­ur fyr­ir þetta því þarna fékk ég nóg“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 9. apríl 2024 19:30

Mynd: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Andri Már Ágústsson uppgötvaði að hann ætti auðvelt með að vinna með fólki og það ætti vel við hann. Fram að því að hann hóf að vinna sem umsjónarmaður í Hlaðgerðarkoti og á áfangaheimilinu Brú hafði hann nær eingöngu stundað líkamlega vinnu. Nú eru samskiptin og að hjálpa fólki orðin að nauðsynlegum hluta lífsins hjá Andra en hann segist fyrst og fremst hafa orðið edrú fyrir son sinn og er hreykinn af því að vera til staðar fyrir hann.  

Andri Már segir sögu sína í Samhjálparblaðinu, hann var efnilegur fótboltamaður og margir spáðu honum bjartri framtíð í íþróttinni. En innra með honum sjálfum var einhver ólga og hann náði ekki þeirri einbeitingu sem þarf til að skapa sér slíkan feril. 

„Ég er alinn upp við alkóhólisma,“ segir hann. „Mér finnst að alla tíð hafi ríkt ákveðið rótleysi í lífi mínu og mér fannst ég standa utan samfélagsins. Mér gekk ekki vel í skóla en ég var góður í íþróttum, var í fótbolta og það hélt mér réttu megin við línuna þar til ég varð fullorðinn. Ég var farinn að fikta við að drekka fjórtán ára og farinn að fikta við fíkniefni eftir það. Þegar ég var sautján ára gafst pabbi upp og setti mér úrslitakosti, annaðhvort yrði ég að taka mig á eða finna mér annað heimili. Ég fór bara út, kynntist barnsmóður minni um svipað leyti og flutti heim til hennar og foreldra hennar.  

Ég róaðist töluvert við það. Notaði minna fíkniefni en ég drakk mjög illa um helgar. Ég vann í Mjólkursamsölunni á þessum árum og var í fínni rútínu að mörgu leyti. Við eignuðumst dreng árið 2011 og tveimur árum síðar labbaði ég út af heimilinu. Þegar ég hugsa til baka var fíknin einfaldlega orðin svo sterk að ég gat ekki lifað án þess að fá mér daglega og nánast hverja sekúndu. Það var auðvitað ekki í boði með konu og barn á heimilinu svo að ég lét mig bara hverfa.“ 

Þakklátur fyrir að hafa orðið fyrir líkamsárás 

Hann er alvarlegur á svip og nokkuð augljóst að honum þykir erfitt að rifja þetta upp.  

„Á árunum frá 2013–2017 var bara ógeðslega mikið rugl á mér,“ heldur hann áfram. „Ég flutti heim til mömmu, sem var orðin edrú þá, og var á sófanum hjá henni þegar ég var einhvers staðar heima. Yngri bróðir minn hætti með kærustu sinni á svipuðum tíma og við fórum á eitthvert flug saman. Ég fór inn á Vog í október 2013, kom út en gerði ekkert í mínum málum og datt í það tíu dögum síðar. Þangað fór ég aftur 2015 og sagan endurtók sig. Ég var ekki meðvitaður um raunverulegan vanda minn á þessum tímapunkti. Í mars 2016 lenti ég í mjög alvarlegri líkamsárás. Fimm einstaklingar sviptu mig frelsi. Þeir voru vopnaðir og reyndu virkilega að murka úr mér lífið. Þeir enduðu á að skutla mér heim til barnsmóður minnar, þar sem ég leið út af og hún hringdi á sjúkrabíl. 

Ég vaknaði á spítala. Það hafði blætt inn á heilann, bein voru brotin í andlitinu og fleiri áverkar um allan líkamann. Í dag er ég frekar þakklátur fyrir þetta því þarna fékk ég nóg. Þótt ég hafi ekki orðið edrú fyrr en einu og hálfu ári seinna varð árásin til þess að ég fór að reyna. Skömmu eftir þetta fór ég í meðferð í Hlaðgerðarkoti í fyrsta skipti. Þar fékk ég upplýsingar um hvað væri raunverulega að mér og hvað ég þyrfti að gera til að halda mér edrú. Ég var mjög góður í meðferðinni og mér gekk mjög vel. Ég upplifði þá hluti sem á að upplifa þegar verið er að gera þá hluti sem eru nauðsynlegir til að verða edrú. 

Þegar ég kom úr meðferðinni gerði ég hins vegar mörg mistök, meðal annars fór ég að vinna of mikið og um helgar lokaði ég mig af með strákinn minn. Ég náði að vera edrú í fjóra mánuði í heildina eftir það. Ég datt í það, við tóku mjög skrautlegir níu dagar og ég vaknaði á Litla-Hrauni eftir þá með sex mánaða fangelsisvist fram undan. Ég var mikið edrú meðan ég sat inni en þó ekki allan tímann. Þarna fékk ég smjörþefinn af því hvernig var að lifa án vímuefna. Ég var í ágætisrútínu inni í fangelsinu, í vinnu og líkamsrækt.“ 

Mynd: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Fékk fleiri verkfæri í hendur  

Það er undarlegt að heyra að einhver manneskja geti fundið fyrir þakklæti fyrir að hafa orðið fyrir alvarlegri líkamsárás og fyrir að hafa endað í fangelsi. En engu síður er það svo að alvarleg áföll geta orðið upphaf einhvers góðs. 

„Ég losnaði í desember 2016,“ segir Andri. „Við tóku nokkrir mánuðir þar sem ég var að reyna að halda mér edrú en gekk illa en 25. september 2017 varð ég edrú og ég fór inn á Hlaðgerðarkot 2. október. Meðferðin var þá orðin lengri. Hún var sex vikur þegar ég fór í fyrra skiptið en var þrír mánuðir þegar ég kom í seinna skiptið. Ég hafði mjög gott af þessum þremur mánuðum þótt ég hafi gert hlutina mjög svipað og ég hafði gert áður. Ég lagði mig mjög mikið fram, gætti þess að mæta í allt prógramm og fór mjög fljótt að líða eins og ég væri að komast í bata við alkóhólisma.  

Það gerðist mjög margt hjá mér meðan á meðferðinni stóð. Ég uppgötvaði marga hluti þegar ég fór að skoða æsku mína betur og fór að átta mig á að ég hefði hegðað mér á ákveðinn hátt út af ýmsu sem komið hafði fyrir og sá að ef ég breytti hegðunarmynstrinu gæti ég breytt öllu öðru. Ráðgjafinn minn kunni óskaplega vel á menn eins og mig, vissi hvernig hann ætti að tala við mig. Hann náði að selja mér þá hugmynd að meðferð væri bara fyrsta hænuskrefið í þessu dæmi. Ef ég ætlaði að láta þetta endast yrði ég að fara í tólf spora samtök og halda vinnunni áfram.  

Þegar ég útskrifaðist eftir áramót 2018 hafði ég í höndunum mun fleiri verkfæri en áður og mjög meðvitaður um hvað ætti að gera. Síðan hef ég verið mjög virkur í tólf spora samtökum. Þetta er bara líf mitt í dag. Ég er mjög opinn með það að ég sé mjög virkur innan þeirra.“ 

Reyndist góður í að vinna með fólki  

Næsta skref var að finna út hvað hann ætlaði að gera við tíma sinn og hverju hann vildi sinna í framtíðinni. 

„Ég fór í skóla þegar ég útskrifaðist, lærði heilsunudd í FÁ, kláraði þar þrjár annir og á bara verklega hlutann eftir af því námi. Þegar ég lauk við bóklegu greinarnar var svo mikil bið eftir að komast að í verknám að nemendur þurftu að bíða í heilt ár. Ég nennti því ekki. Ákvað þess í stað að skoða aðra hluti og tók við rekstri á bónstöð sem vinur minn var með, fór svo að vinna hjá Heklu og þaðan fór ég í vinnu á verkstæði á Selfossi, Detail Ísland, sem sérhæfir sig í keramikhúðun bíla. Meðan ég var að vinna þar fékk ég símtal frá Alla, sem var umsjónarmaður á Hlaðgerðarkoti. Hann spurði mig hvort ég hefði einhvern áhuga á að leysa af í því starfi á sumrin. Ég var heldur betur til í það.“ 

Andri Már fór í atvinnuviðtal við forstöðukonu Hlaðgerðarkots og var í kjölfarið fenginn til að leysa af strax. Um svipað leyti bauðst honum einnig að verða umsjónarmaður á áfangaheimilinu Brú og þá gerði hann sér ljóst að hann hafði ýmsa hæfileika sem hann hafði ekki áður vitað af.  

„Ég hafði ekki hugmynd um að ég hefði áhuga á að vinna með fólki. Fram að þessu hafði ég mest verið að vinna með bíla og í erfiðri líkamlegri vinnu en ég gersamlega fann mig í þessu,“ segir hann. „Vaktirnar í Hlaðgerðarkoti voru þannig að maður vann átta sólarhringa í mánuði, þannig að ég stofnaði eigið fyrirtæki sem ég rak meðfram vinnunni í Hlaðgerðarkoti og á Brú. Ég rak mitt eigið verkstæði, Detail setrið, og fyrirtækið stækkaði hratt. Samkvæmt öllu hefði ég átt að hætta á Hlaðgerðarkoti og Brú og helga mig því en ég gersamlega dýrkaði að vinna þarna.  

Ég er mjög góður í þessu starfi. Ég hef gengið þessa braut og tala af eigin reynslu. Ég hef þennan faktor að geta talað við aðra alkóhólista á jafningjagrundvelli. Þótt ég sé kominn aðeins lengra verð ég alltaf einn af þeim og því mæti ég fólki á þeim forsendum. Ég fékk mjög góðan hljómgrunn strax og var í essinu mínu að hjálpa fólki.“ 

Mynd: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Heldur á nýjar slóðir  

Ákveðinn vendipunktur varð hjá Andra Má núna um áramótin. Vaktafyrirkomulagi í Hlaðgerðarkoti var breytt, áfangaheimilið Brú var lagt niður og hann hafði selt fyrirtækið sitt og hafið störf á Stuðlum. Honum bauðst þar staða og úr varð að hann ákvað að kveðja Hlaðgerðarkot og taka að sér meira starf með unglingunum á Stuðlum. 

„Ég var ekki viss um að vaktafyrirkomulagið myndi henta mér meðfram rekstrinum,“ segir hann. „Ég hafði unnið mjög mikið lengi og var orðinn slæmur í skrokknum svo að ég ákvað að selja fyrirtækið. Mér fannst nýja vaktafyrirkomulagið skapa það að ég yrði ekki í eins miklum samskiptum við fólkið og elskaði þann þátt vinnunnar. Það var helsta ástæðan fyrir því að ég ákvað að hætta. Ég tók líka að mér aukavinnu á Stuðlum meðan ég var í öllu hinu og stend mig vel í vinnunni á Stuðlum og þeir voru alltaf að pota í mig að koma í meiri vinnu, taka að mér fastar vaktir og það varð úr. En það er mjög erfitt að hugsa til þess vera ekki lengur í Hlaðgerðarkoti.“ 

En hvað með einkalífið?  

„Ég og barnsmóðir mín tókum saman aftur þremur árum eftir að ég hætti að drekka og trúlofuðum okkur á aðfangadag 2021,“ segir hann glaður. „Við keyptum okkur íbúð saman og ætlum að gifta okkur í sumar. Strákurinn minn er að verða þrettán ára. Síðastliðin ár hafa verið stórkostleg. Við höfum ferðast mikið bæði innanlands og erlendis. Ég hef upplifað lífið á mjög fallegan hátt og aldrei hefur það komið upp í huga mér að ég þurfi áfengi eða fíkniefni til að laga eitthvað eða bæta.“‘ 

Víst hægt að hætta að drekka fyrir barnið sitt  

Andri Már er líka mjög meðvitaður um hvað hann þarf að gera til að skapa sér vellíðan og rækta andlegt jafnvægi.  

„Ég finn að ég hef einhverja ró innra með mér sem ég hafði aldrei áður haft á ævinni. Ég geri hlutina aldrei í hvatvísisrugli. Ég er með mjög sterkan hóp manna í kringum mig sem eru allt frá nokkrum árum yngri upp í fleiri árum eldri sem ég leita til áður en ég tek stórar ákvarðanir. Þeir passa upp á að ég æði ekkert áfram í mínu lífi. Persónulega er ég líka mjög öruggur með á hvaða vegferð ég er en það er ákveðið sjálfstraust og sjálfsvirðing sem hefur komið í kjölfar þess að standa við allt sem ég hef sagst ætla að gera undanfarin ár. 

Ástæðan fyrir því að ég varð edrú í upphafi er að mig langaði að vera til staðar fyrir barnið mitt, hundrað prósent. Það hefur gengið á sjöunda ár núna. Ég hef á þeim tíma mætt í öll foreldraviðtöl, öll fótboltamót, alltaf verið til staðar. Það er mín langstærsta gjöf í þessu og annað hefur stækkað út frá því, störfin sem ég hef gegnt, reksturinn og allt sem ég hef lært af því.  

En þetta hefur verið ofboðslega erfitt á köflum. Ég missti besta vin minn í október 2022. Hann hafði búið á áfangaheimilinu Brú hjá mér eftir meðferð í Hlaðgerðarkoti. Hann tók of stóran skammt og það er erfiðasta lífsreynsla sem ég hef farið í gegnum. Hann dó ekki strax. Var um tíma í öndunarvél og maður hafði alltaf svo mikla trú á að hann myndi vakna. Þótt þetta væri hrikalegasta áfall sem ég hafði gengið í gegnum eftir að ég varð edrú datt mér aldrei í hug að detta í það og það segir mér að einhvers konar lækning hafi átt sér stað og ég sé að gera það sem ég þarf til að halda mér edrú. Ég var þannig að ef einhver talaði illa um mig eða sagði eitthvað særandi barði ég frá mér til að slökkva á sársaukanum inni í mér. Ég notaði áfengi og eiturlyf til að lækna mig á tímabili en nú get ég farið í gegnum lífið og mætt öllu án þeirrar deyfingar. 

Það að hafa farið í meðferð í Hlaðgerðarkoti var besta gjöf sem ég hef fengið og barnsmóðir mín, mamma og barnið mitt. Ég var algjör byrði á þessu fólki. Strákurinn minn kom aldrei í heimsókn til mín meðan ég var í fangelsi. Það var nokkuð sem ég vissi að myndi ekki gerast. Allan tímann sem ég var í neyslu var barnsmóðir mín samt svo góð. Hún sagði alltaf: „Ef þú lætur renna af þér máttu hitta barnið þitt.“ Ég gerði það reglulega svo ég missti aldrei tenginguna við hann, sem varð til þess að ég á endanum fór í meðferð fyrir hann. Það er talað um að menn verði ekki edrú fyrir börnin sín en það er bara bull því í mínu tilviki var það aðalhvatinn. Það þýðir ekki að maður loki sig einhvers staðar af með barnið en það varð til þess að ég gerði meira í mínum málum. 

Þegar ég fór að fá hann til mín í pabbahelgar eftir að ég varð edrú var ég meðvitaður um að ég þyrfti líka að sinna mér. Ég fór á fundi á föstudögum og mamma var bara með strákinn á meðan. Ég mæti enn á þessa fundi en hann var algjör hvati fyrir mig. Við fórum nýlega til Tenerife og sú ferð var dásamleg, nokkuð sem ég gat aldrei gefið honum áður, en við gerum reglulega í dag,“ segir Andri Már að lokum, en næstu skref hans verða á Stuðlum að hjálpa unglingum og ungu fólki að breyta lífi sínu til hins betra.  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt