fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

Segja ráðherrakapal Bjarna vanvirðingu við almenning – „Bara hann gæti klúðrað svona upp metorðastigann“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 9. apríl 2024 15:00

Bjarni Benediktsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Formenn ríkisstjórnarflokkanna, Bjarni Benediktsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Guðmundur Ingi Guðbrandsson tilkynntu á blaðamannafundi í Hörpu í dag hvernig ráðherrastólar myndu skiptast eftir brotthvarf Katrínar Jakobsdóttur úr stól forsætisráðherra.

Bjarni Benediktsson tekur við sem forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson verður fjármálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir verður innviðráðherra og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir verður matvælaráðherra. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fer úr fjármálaráðuneytinu aftur í utanríkisráðuneytið.

Óhætt er að segja að netverjar hafi tekið tíðindunum misvel og svona voru viðbrögð þeirra sem líst ekkert á ráðherrakapalinn sem kynntur var í dag:

„Þá er það orðið opinbert, Bjarni Benediktsson verður forsætisráðherra. Ráðherrann sem 75% þjóðarinnar treysta minnst. Ráðherrann sem sagði af sér sem fjármálaráðherra vegna spillingar. Ráðherrann sem síðast þegar hann var forsætisráðherra þurfti að segja af sér í kjölfar yfirhylmingar um uppreist æru barnaníðinga. Þetta er arfleið Katrínar Jakobsdóttur, hún afhendir Bjarna Benediktssyni aftur lyklana að stjórnarráði Íslands. Það skiptir ekki lengur máli hver stjórnar, það skiptir engu máli hvernig er stjórnað og hvað þá hverju er stjórnað. Það eina sem skiptir máli er að halda völdum valdanna vegna,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir formaður Pírata.

Halldóra Mogensen þingmaður Pírata deilir færslu Þórhildar með orðunum: „Þá er farsinn afhjúpaður. Vanvirðingin við almenning er algjör.“

Í gær var Hrafn með aðra færslu á X þar sem hann sagði: „Geggjað ef niðurstaðan í þessu verður að Bjarni verði forsætisráðherra. Yfirgaf fjármálaráðuneytið með skottið á milli lappanna, þjösnaðu sér í gegnum utanríkisþjónustuna eins og holdanaut í Ittalaverslun og svo forsætisráðherra. Bara hann gæti klúðrað svona upp metorðastigann.“

Bjarni Ben ýmist sagður keisari eða konungur….

„Ráðherrann sem stakk skýrslum um skattaskjól undir stól fyrir kosningar og seldi pabba sínum hlut í ríkisbanka. Keisarinn í engum fötum,“ segir Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata.

„Og litli prinsinn fær þá loksins að verða konungur þegar gamla drottningin víkur frá. En varla mun hann ríkja ýkja lengi. Stutt lýsing á breska konungsveldinu eða…,“ segir Valur Gunnarsson rithöfundur.

Jón Trausti Reynisson framkvæmdastjóri Heimildarinnar segir: „Nýr formaður Vinstri grænna náði samningum um að fá innviðaráðuneytið í skiptum fyrir forsætisráðuneytið. Með þessu náði hann að sefa samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn frá því að fella Svandísi Svavarsdóttur úr ráðherrastóli fyrir að hindra tímabundið veiðar á hvölum.

Um leið sest óvinsælasti stjórnmálamaður landsins í forsætisráðherrastólinn og lýsir strax yfir algeru forgangsmáli að stöðva hælisleitendur, sem hann hafði áður tengt við brotastarfsemi. „Við erum brattir,“ sagði einn þeirra þriggja karla sem leiða nýja ríkisstjórn. Ég trúi því. Það hlýtur að vera hlegið allt frá Valhöll yfir í Hádegismóa. Hver var ástæðan fyrir eftirgjöfinni? Ímyndum okkur hliðstæðan veruleika þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði slitið ríkisstjórn á Íslandi vegna vafasamrar röskunar ráðherra á hvalveiðum. Það hefði verið jafnvandræðalegt og öll hin skiptin sem okkar bestu stjórnmálamenn hafa ratað í heimsfréttirnar.“

Vill spara og hafa tvennar kosningar í vor

„Í gær sagði ég í samtali um hvernig nýja ríkisstjórnin myndi líta út að það væri alveg útilokað að Bjarni Benediktsson myndi taka sæti forsætisráðherra, það yrði bara allt of vandræðalegt að skipta svona fljótt aftur um stól. Þetta eitt og sér, fyrir utan allt annað (svo sem gríðarlegar óvinsældir hans), taldi ég að hlyti að fá fólk til að staldra við slíka ákvörðun. Enn og aftur verður það mér það að falli að reyna að beita einhvers konar viðmiðum um hvað telst eðlilegt og boðlegt á þetta fólk,“ segir Halldór Auðar Svansson varaþingmaður Pírata.

Bubbi Morthens tónlistarmaður leggur orð í belg og segir að líklega verði bara um endurtekið efni að ræða: „Ég er hræddur um eftir 2 ár verður umræðan á samfélagsmiðlunum um þá Ríkisstjórn sem situr þá svipuð og núna og öll hin árin drullað yfir allt og alla versta Ríkistjórn sögunar og einhver einn ráðherra verður sá sem er talinn spilltastur verstur vinstri hægri samsteipu stjórn skiftir ekki máli þannig hefur þetta verið frá því eg man eftir magnaður andskoti.“

Telur um bestu lausnina að ræða

Guðbjörn Guðbjörnsson yfirtollvörður og óperusöngvari fær ósk sína að hluta rætta og er ánægður með það sem hann telur bestu lausnina: „Ósk mín frá því í gær er að hluta til að rætast, þegar Bjarni Benediktsson tekur loksins aftur sæti sem forsætisráðherra landsins. Að vísu þurfum við sjálfstæðismenn að fórna fjármálaráðuneytinu en það verður í góðum höndum hjá hinum reynslumikla og ábyrga Sigurði Inga Jóhannssyni. Mér líst afskaplega vel á minn æðsta yfirmann, þ.e. fjármála- og efnahagsráðherra.
Persónulega hefði ég kosið að Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn segðu skilið við VG, en það virðist því miður ekki vera hluti af atburðarásinni. Það hefur sýnt sig að fjármálaráðuneytið er hreinlega einu númeri of stórt fyrir Þórdísi Kolbrúnu og þar með hefur hún einnig sýnt og sannað að hún er ekki rétta konan í sæti formanns Sjálfstæðisflokksins, sem losnar eftir 1 1/2 ár.
Líklega er þetta besta lausnin, þótt ég sé aldrei hræddur við kosningar frekar en Sjálfstæðisflokkurinn yfirleitt. Hins vegar er einnig á hreinu að líklega er nóg að kjósa til forseta á árinu 2024. Ný ríkisstjórn þarf þó að láta hendur standa fram úr ermum á næstu 18 mánuðum. Mörg brýn mál þarf að leysa úr m.a. breytingar á útlendingalögum, orkulögum og taka á efnahagsmálum.“

Leiðin til að losna við ráðherra?

Jakob Vagn Guðmundsson er mögulega með lausnina vilji menn losna við Bjarna og aðra úr stjórnmálum:
„Hvernig á að byrja daginn á jákvæðum nótum.
1. Búðu til skjal í tölvunni
2. Vistaðu það undir nafninu „Katrín Jakobs“
3. Sendu skjalið í ruslakörfuna
4. Tæmdu ruslakörfuna
5. Tölvan mun þá spyrja þig: „viltu losa þig við Katríni Jakobs“
6. Smelltu á JÁ
Líður þér betur?
Gott. Á morgun býrðu til skjal sem heitir Bjarni Benediktsson“

Ríkisráðsfundir verða haldnir á Bessastöðum síðar í dag.  Fundur fráfarandi ríkisstjórnar hefst kl. 19:00 en að honum loknum hefst fyrsti ríkisráðsfundur nýrrar ríkisstjórnar eftir stutt hlé.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast